Þetta kemur fram í skriflegu svari SÍ við fyrirspurn Vísis. Greint var frá því fyrir helgi að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) hafi keypt hraðpróf fyrir 379,8 milljónir króna en HH hefur sinnt innkaupum fyrir allar heilbrigðisstofnanir landsins og hjúkrunarheimili frá því í vor.
Samanlagt hefur ríkissjóður því greitt um 1,33 milljarða króna vegna hraðprófa. Þrjú fyrirtæki bjóða upp á Covid-19 hraðpróf samkvæmt heimild frá heilbrigðisráðuneytinu og Embætti landlæknis: AVIÖR, sem er hluti af Öryggismiðstöðinni, Sameind og Arctic Therapeutics.
Einkaaðilar tekið minnst 237.543 hraðpróf
Samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga greiðir stofnunin 4.000 krónur fyrir hvert hraðpróf sem einkaaðilarnir framkvæma. Miðað við það má gera ráð fyrir að fyrirtækin hafi tekið minnst 237.543 hraðpróf frá því að ríkið byrjaði að niðurgreiða prófin í september í fyrra.
Sóttvarnalæknir tilkynnti í seinustu viku að takamarka þyrfti fjölda PCR-prófa sem tekin yrðu á hverjum degi vegna þess að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans ráði ekki við þann fjölda sýna sem hafi verið að berast. Aukin áhersla verður því lögð á hraðpróf og hjá heilsugæslunni á Suðurlandsbraut verður í boði að fara í hraðpróf þegar hámarks PCR-sýnafjölda fyrir daginn er náð. Ef hraðpróf reynist jákvætt þarf áfram að staðfesta það með PCR.