Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að áhyggjur atvinnuflugmanna lúta einkum að aðflugi og lendingum á austur-vestur braut flugvallarins, að nýtt íbúðahverfi við suðurjaðar brautarinnar muni skapa flugvélum hættu.
„Við höfum komið þessum sjónarmiðum á framfæri við bæði ríki og borg, að þessi nýja byggð sem er áformuð hérna muni valda áður óþekktri ókyrrð og hættu. Það samræmist ekki þessu orðalagi, sem var alveg afdráttarlaust í samkomulaginu sem borgarstjóri og samgönguráðherra undirrituðu í nóvember 2019, um að rekstraröryggi skuli tryggt á Reykjavíkurflugvelli,“ segir Ingvar Tryggvason, formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Hann vísar til skýrslu sem Isavia lét hollensku geimferðastofnunina gera.
„Niðurstaða Hollendinganna, NLR, var alveg afdráttarlaus; að hættan kallar á mildunarráðstafanir, sem myndu aldrei felast í neinu öðru en takmörkuðu notagildi.“
Ingvar segir reynsluna af hinni nýju Hlíðarendabyggð hafa verið slæma. Húsin þar valdi ókyrrð í ákveðnum vindáttum og það hafi verið fyrirséð.
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlands, hefur lýst samskonar áhyggjum.
„Isavia þarf að beita sér, augljóslega. Isavia þarf að setja fótinn niður og taka þátt í að tryggja flugöryggi. Og mér heyrist það á Sigrúnu Björk að það standi til,“ segir Ingvar.
Hann segir þetta þó ekki snúast um hagsmuni flugmanna.
„Við sjáum þetta fyrst og síðast út frá almannahagsmunum og sjúkraflugið vegur þar einna þyngst. Þarna er eina hátæknisjúkrahúsið sem íslensk þjóð hefur bolmagn til þess að reka. Og óháð búsetu þarf fólk að geta komist á þetta sjúkrahús.
Íbúar höfuðborgarinnar geta orðið fyrir heilsubresti eða slysförum úti á landi. Þannig að þetta er meiriháttar hagsmunamál sem varðar alla íbúa þessa lands.“

En er raunhæft að stöðva byggingaráform borgarinnar, í ljósi þess að ríkið seldi henni landið?
„Já.. menn hafa farið svolítið fram úr sér. En vilji ríkisins kemur fram þarna í þessu samkomulagi um að rekstraröryggi skuli tryggt. Þannig að menn verða bara að halda að sér höndum - meðan flugvöllurinn er í notkun,“ segir formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: