Valieva féll á lyfjaprófi í desember en hefur ekki enn verið úrskurðuð í keppnisbann vegna þess. Ástæðan fyrir því að hún fær ekki að keppa á HM er sú að hún er rússnesk.
Alþjóða skautasambandið hefur gefið út að keppendur frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi fái ekki að keppa á mótum á vegum sambandsins, vegna stríðsins í Úkraínu. Hvíta-Rússland hefur sýnt innrás Rússa í Úkraínu stuðning.
Þetta þýðir að Valieva, sem af flestum var álitin sigurstranglegust á HM, Ólympíumeistarinn Anna Shcherbakova og silfurverðlaunahafinn frá því í Peking, Alexandra Trusova, missa allar af heimsmeistaramótinu.
Alþjóða skautasambandið fer með aðgerðum sínum eftir tilmælum alþjóða ólympíunefndarinnar líkt og flest alþjóðleg íþróttasambönd hafa gert, með því að banna Rússum að keppa á alþjóðlegum mótum á meðan á innrásinni í Úkraínu stendur.