Aðalsteinn er einn fjögurra blaðamanna með réttarstöðu sakbornings í tengslum við rannsókn lögreglunnar á broti gegn friðhelgi einkalífs Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja. Aðalsteinn lét reyna á það fyrir dómstólum hvort lögreglu væri heimilt að boða blaðamann til skýrslutöku vegna málsins.
Héraðsdómur Norðurlands eystra komst að þeirri niðurstöðu í lok febrúar að lögreglunni fyrir norðan væri óheimilt að kalla Aðalstein til skýrslutöku. Blaðamaður yrði ekki talinn brotlegur við lög „fyrir það eitt að móttaka og sjá viðkvæm persónuleg gögn sem ekki varða almenning, enda er það þáttur í starfi blaðamanna að móttaka ýmis gögn og ábendingar sem þeir meta hvort eigi erindi við almenning.“
Umrædd gögn, sem leiddu til umfjöllunar um svokallaða skæruliðadeild Samherja, voru á síma Páls skipstjóra. Á símanum var einnig að finna persónulegt kynferðislegt efni ef marka má greinargerð lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Lögreglan á Norðurlandi eystra kærði úrskurðinn í héraði til Landsréttar sem vísaði kæru Aðalsteins frá héraðsdómi. Lögreglan tilkynnti í framhaldinu að rannsókn málsins myndi halda áfram. Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Aðalsteins, kærði úrskurðinn í Landsrétti til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá í dag.