Hlédís Sveinsdóttir átti dóttur sína á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í janúar 2011. Saga Hlédísar vakti mikla athygli þegar hún steig fram í Kastljósi árið 2013 en dóttir hennar varð fyrir heilaskaða í fæðingu, sem Hlédís rekur til alvarlegra mistaka heilbrigðisstarfsfólks sem tók á móti barninu.
Hlédís segir það hafa tekið á að heyra frásögn Bergþóru Birnudóttur, sem sagði frá því í Kveik á RÚV á þriðjudag að hún hefði örkumlast við barnsburð og hyggst stefna ríkinu vegna læknamistaka sem hún segir hafa átt sér stað við fæðinguna.
Eiginlega orðlaus
Fjölmargar konur, meðal annars Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, hafa í kjölfarið komið fram með reynslusögur úr heilbrigðiskerfinu og segja margar að þar hafi ekki verið hlustað á réttmætar áhyggjur þeirra.
„Maður er eiginlega orðlaus. Það er bara óendanlega sárt að þetta sé enn þá í sama farinu. Ég opinberað imitt mál til að það væri hægt að draga lærdóm af því þannig að ég held að þetta taki á alla sem hafa lent í einhverju hnjaski,“ segir Hlédís.
„En ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn núna. Þessi umræða, ef við höldum henni vakandi, ef fólk áttar sig á því hversu mikið er undir í framtíðinni og að við séum kerfið og við getum breytt því, þá gerist eitthvað.“
Þá vísar hún til orða Ölmu Möller landlæknis í Kveik, sem sagði að virkja ætti frekar þátttöku sjúklinga í eigin meðferð.
„En mér finnst þó allavega að það ætti að byrja á að hlusta á þessa sjúklinga sem lenda í skakkaföllum. Þau eru að reyna að bæta kerfið, ef við bara byrjum þar. Byrjum á þeim enda. Það er alltaf sama uppskriftin. Það er ekki rödd þjónustuþega, það er að segja sjúklinga, þau hafa enga rödd inn í þessar nefndir,“ segir Hlédís.