Samfélagsmiðlar hafa undanfarið verið undirlagðir frásögnum íslenskra kvenna sem lýsa því að heilbrigðiskerfið hafi brugðist þeim, einkum í tengslum við fæðingar. Sú er einmitt upplifun Eydísar Eyjólfsdóttur, sem eignaðist fyrsta barn sitt árið 1997 eftir 63 klukkustundir af hríðum.
Sunna Símonardóttir doktor í félagsfræði sem rannsakað hefur fæðingarreynslu kvenna gagnrýnir hversu mikil áhersla er lögð á náttúrulegar fæðingar í fæðingarþjónustu hér á landi. Hennar von er að hlustað verði á konur og farið verði í það að afbyggja þá hugmynd að náttúruleg fæðing sé alltaf það besta.
Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir að fæðing og meðganga sé í eðli sínu náttúrulegt ferli. Starf ljósmæðra gangi út á að fylgjast með konum og bregði eitthvað út af í ferlinu fái þær aukið eftirlit.
„Ég held að ljósmæður hlusti alltaf á konur en ljósmæður eru fagmanneskjur. Þær eru að hlusta og þær eru að trúa konum en þær þurfa svo að taka ákvarðanir sem fagmanneskjur og þær gera það, byggt á faglegum staðreyndum. Og það eru oft kannski ekki ákvarðanir sem konurnar eru sáttar við,“ segir Unnur Berglind.
Verði að treysta fagfólki
Aðspurð um gagnrýni vegna áherslu á náttúrulegar fæðingar segir hún að verið sé að fylgja alþjóðlegum stöðlum.
„Ég held að það komi alltaf sá tímapunktur í fæðingu hjá konu sem er í hundrað prósent eðlilegu ferli að hún vilji bara klára keisara – það var þannig hjá mér sjálfri, í minni fæðingu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að tíu til fimmtán prósent keisaratíðni séu svona mörkin sem sýna fram á besta útkomu fyrir móður og barn og keisaratíðni á Íslandi er sextán prósent. Þannig að ég held að við verðum bara að treysta fagfólkinu,“ segir Unnur Berglind.
„Mjög gamlar sögur“
Hún segir að ákvarðanir séu teknar í hverju tilfelli fyrir sig og vonar að mál standi betur í dag en áður.
„Við erum alltaf að hlusta á konurnar og við tökum alltaf ákvarðanir út frá því sem er að gerast í það sinn hjá þeirri konu. Það sem ég tek eftir er að þær sögur sem eru að koma í dag eru mjög gamlar sögur þannig að ég vona að hlutirnir hafi breyst til betri vegar; af því að við erum alltaf að bæta og endurskoða. Við erum að fylgjast með öllu því nýjasta sem er í fræðunum, metum rannsóknir og erum að breyta. Þetta er bara dagsdaglegt hjá okkur að bæta ferlana hjá okkur.“