Á 7. mínútu í leik Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í gær risu allir áhorfendur á Anfield á fætur og klöppuðu í mínútu til minningar um son Ronaldos sem lést við fæðingu í fyrradag. Ronaldo og Georgina Rodriguez, kærasta hans, áttu von á tvíburum en aðeins annað barnanna, stúlka, lifði fæðinguna af.
Ronaldo var eðlilega ekki með í leiknum í Anfield í gær. Á heimasíðu United sagði: „Fjölskyldan er mikilvægari en nokkuð annað og Ronaldo er að styðja sína nánustu á þessum gríðarlega erfiðu tímum.“
Systir Ronaldos segir að fjölskyldan hafi verið djúpt snortin í gær og verði alla tíð þakklát stuðningsmönnum Liverpool. „Takk fyrir þetta Liverpool. Við gleymum aldrei því sem þið gerðuð í dag,“ sagði Aveiro.
Liverpool hafði mikla yfirburði í leiknum í gær og vann 4-0 sigur. Mohamed Salah skoraði tvö mörk og Luis Diaz og Sadio Mané voru einnig á skotskónum. Með sigrinum komst Liverpool á topp ensku úrvalsdeildarinnar. Liverpool vann báða leikina gegn United á þessu tímabili, samtals 9-0.