Samkvæmt japönsku strandgæslunni barst neyðarkall frá ferðamannabátnum Kazu 1 um klukkan fjögur að íslenskum tíma aðfaranótt laugardags. Báturinn var með ferðamenn í útsýnissiglingu við Shiretoko skagann þegar tilkynning barst um að hann væri að sökkva.
Bátsferðir eru vinsælar á þessum slóðum enda skaginn á heimsminjalista UNESCO. Tuttugu og sex ferðamenn voru um borð. Tíu hafa fundist látnir og þá er sextán enn saknað. Tvö börn voru um borð.

Áhöfn Kazu 1 náði að senda neyðarkall um að kominn væri þrjátíu gráðu halli á bátinn og að hann væri farinn að leka. Eftirlitsbátur var strax sendur á vettvang auk lögreglu- og herþyrla. Bátar á svæðinu tóku einnig þátt í leitinni.
Oft tekur langan tíma að fá fregnir um staðfest dauðsföll í kjölfar slysa eða náttúruhamfara þar sem meinafræðingur þarf að staðfesta dauðsföllin.
Sjórinn á þessum slóðum er afar kaldur og getur farið niður í núll gráður yfir nóttina.