Þótt vextir, sem hafa verið í sögulegu lágmarki um nokkurt skeið, hafi hækkað hratt að undanförnu eru raunvextir enn neikvæðir vegna mikillar verðbólgu, sem allir greiningaraðilar eru sammála um að eigi eftir að aukast.
Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingur hjá Íslandsbanka segir raunvexti ekki geta verið neikvæða til lengri tíma.

„Raunvextir verða að fara yfir núlllið. Á meðan þeir eru neikvæðir er peningamálastefnunefnd Seðlabankans ekki aðhaldssöm. Þá er hún í raun að drífa hagkerfið áfram í staðinn fyrir að bremsa það. Þess vegna erum við að búast við að búast við stýrivaxtahækkunum á þessu ári. Þeir verði jafnvel í lok ársins á milli fimm og sex prósent,“ segir Bergþóra.
Frá lokum apríl í fyrra hefur verðbólgan aukist úr 4,6 prósentum í 7,2 prósent í lok apríl síðast liðnum. Á sama tíma hafa meginvextir Seðlabankans, eða stýrivextir, hækkað úr 0,75 prósentum í 3,75 prósent. Þar munar mest um hækkun upp á eitt prósentustig hinn 4. maí.

„Þess vegna erum við að búast við stýrivaxtahækkunum á þessu ári. Þeir verði jafnvel í lok ársins á milli fimm til sex prósent,“ segir Bergþóra.
Það eru vissar þverstæður í stöðu efnahagsmála nú því greiningaraðilar spá miklum hagvexti í ár. Í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka er spáð 5 prósenta hagvexti á þessu ári. Það dragi hratt úr atvinnuleysi þannig að skortur gæti orðið á vinnuafli.

Íbúðaverð hefur hækkað um 22,3 prósent á síðustu tólf mánuðum og ekkert útlit fyrir að það dragi úr þeim hækkunum á næstu mánuðum að mati Greiningar Íslandsbanka. Jafnvægi náist vonandi á íbúðamarkaði um mitt næsta ár en töluverð óvissa sé með innflutta verðbólgu vegna kórónuveirufaraldursins og nú síðast stríðsins í Úkraínu.
„Auðvitað höfum við töluverðar áhyggjur af innfluttu verðbólgunni. Hún er að hafa mikil áhrif á verðbólguna hér á landi eins og annars staðar. En við erum að vonast til að þegar íbúðamarkaðurinn fer að róast að það gæti vegið upp á móti innfluttri verðbólgu,“ segir Bergþóra Baldursdóttir.