Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ásdísi Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðismanna í Kópavogi og Orra Vigni Hlöðverssyni, oddvita Framsóknar í bænum.
„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Kópavogi hafa rætt saman síðustu daga og farið yfir áherslur flokkanna. Samhljómur er milli flokkanna um verkefni næstu ára og var því ákveðið í dag að hefja formlegar viðræður um myndun meirihluta.
Framundan er vinna við að skrifa málefnasamning, móta áherslur og skilgreina verkefni næstu ára. Við gerum okkur væntingar um að vinnan muni ganga hratt og örugglega fyrir sig,“ segir í tilkynningunni.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn héldu meirihluta sínum í bæjarstjórn Kópavogs í kosningunum á laugardag. Náðu Sjálfstæðismenn inn fjórum fulltrúum og Framsóknarmenn tveimur. Framsóknarmenn bættu þar með við sig einum manni, en Sjálfstæðismenn misstu einn frá fyrri kosningum.