Sumarseta æðarkollunnar við Sævarenda hófst árið 1951 í umsjá Kristins Halldórssonar en þá voru aðeins 176 hreiður í þorpinu. Nú eru hreiðrin orðin um sexþúsund og æðarfuglarnir um tólfþúsund. Árlega skilar æðarvarpið um hundrað kílóum af æðardún sem fer í dúnsængur framleiddar á Borgarfirði eystri.

Hjónin Ólafur Aðalsteinsson og Jóhanna Óladóttir hafa séð um æðarkolluþorpið við Sævarenda frá áramótum, í heil 22 ár. Þau dvelja þar á hverju sumri frá byrjun maí fram í júlí. Af því það er ófært landleiðina í Loðmundarfjörð fram að miðjum júní þurfa hjónin að bera allar vistir í átt að afskekktu húsinu sjálf.
Á vorin þurfa þau svo að taka rösklega til hendinni því það þarf að laga girðingar eftir snjóþungan veturinn, koma hita á húsið og laga til í æðarkolluþorpinu. En þau eru heppin að hafa hjónin Albert Hauk Gunnarsson og Rögnu Valdimarsdóttur sér til aðstoðar á vorin.

Fjölbreyttur húsakostur í þorpinu
Þorpið hefur sín sérkenni og er húsakostur fuglanna býsna fjölbreyttur. Sumir fuglanna búa í einbýlishúsum, aðrir í netakúlum á meðan enn aðrir búa í hverfum sem minna á víkingahvefi frá fyrri öldum, búin til úr rekavið. Þá búa sumar kollurnar í blokkum með yfirsýn yfir hverfið, ein þeirra er pósthús á staðnum úr rauðri tunnu.

Öll þessi hverfi hafa nöfn en þar á meðal má nefna Saurbær, þar sem allar kollurnar drita í einu komi einhver truflun að íbúunum. Þar að auki má finna hverfin Kassahæð, Mosfell, Skorukinn, Flóðodda, Heimahæð, Hólma og Stöng.

Ríkasta hverfið er í kringum Saurbæ en fátækari hverfin eru ofar í þorpinu, nær fjöllunum, í bláum plasttunnum.
Fuglarnir eru misjafnir, rétt eins og hverfin, sumir eru rólegir á meðan aðrir eru villingar og frekjudollur. Karakter fuglanna sést hvað best þegar dúnninn er tekinn.

Hætturnar leynast víða fyrir ungana litlu
Æðarvarpið er girt af til að verjast tófunni og öðrum rándýrum sem viljast ráðast á varpið. Meðal þeirra varga sem herja á æðarvarpið eru tófa, svartbakur, hrafn og skúmur.
Þegar ungarnir eru komnir úr eggjunum er synt af stað á öðrum degi yfir í Seyðisfjörð, þar sem þeir fara í Skálanesbót og Skálanes.

Komist þeir lengra inn fjörðinn að Bæ í Seyðisfirði drepast flestir ungarnir vegna olíunnar úr El Grillo. Það þarf mjög litla olíu á dún ungana til að þeir sökkvi um leið en þá er veisla hjá veiðibjöllunni.

Ólafur Aðalsteinsson segir að á undanförnum 22 árum hafi einungis komið tvö góð ár þar sem ungarnir komust flestir vel á legg.
Í ár rigndi og flæddi yfir hólmana á stórstraumsflóði í bland við mikla snjóbráð með norðaustan belgingi sem stóð inn fjörðinn þannig að það hækkaði í ánni um rúman metra. Það má reikna með að rúmlega helmingur af þeim ungum sem komist hefðu á legg hafi drepist í flóðunum.
Dúnninn fer í æðardúnssængur á Borgarfirði eystri
Æðarvarpið að Sævarenda skilar um hundrað kílóum af æðardún sem fer í dúnsængur sem framleiddar eru á Borgarfrði eystri hjá fyrirtækinu Icelandic Down.

Ragna Óskarsdóttir, fædd og uppalin í Reykjavík, flutti til Borgarfjarðar eystri þar sem hún býr núna og rekur Icelandic Down. Fyrirtækið var stofnað af tveimur fjölskyldum og eru hlutverkin mjög skýr.
Á meðan Óli og Jóhanna sjá um hreiðursvæðið og tína dúninn í Loðmundarfirði sér fjölskylda Rögnu um að hreinsa dúninn, framleiða og markaðsetja vörurnar. Það gerist allt í höfuðstöðvum þeirra, pínulitlu bláu húsi á Borgarfirði eystri.
