Tónlist

„Bónus ef að fólk leggur við hlustir og tala nú ekki um ef það hefur gaman af því í leiðinni“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tónlistarmaðurinn JAFET var að senda frá sér sitt fyrsta lag.
Tónlistarmaðurinn JAFET var að senda frá sér sitt fyrsta lag. Aðsend

Jafet Máni Magnúsarson var að gefa út sitt fyrsta lag, Tengja mig, undir listamannsnafninu JAFET. Blaðamaður tók púlsinn á honum og fékk að heyra meira.

„Ég hef komið víða við en er að stíga mitt fyrsta skref á sviði tónlistar,“ segir Jafet og bætir við: „Lagið Tengja mig er samið í samvinnu við lagahöfundinn og pródúserinn Bjarka Ómarsson, Bómarz, sem hefur unnið með tónlistarfólki á borð við GDRN, Grétu Salóme, Chris Medina, Ingeborg Walther og Nick Ray.“

Reynsla af kvíða

Jafet sækir innblástur í textann meðal annars úr sínu eigin lífi ásamt upplifunum á umhverfinu.

„Lagið fjallar meðal annars um hroka, þá þeirra sem telja sig vera æðri öðrum, sem og kvíða, sem ég hef sjálfur reynslu af.“ Ásamt því býr lagið yfir þeim skilaboðum að við erum öll jöfn, sama hver við erum og sama hvað við erum að fást við hverju sinni.

Jafet býr yfir fjölbreyttum bakgrunni þrátt fyrir ungan aldur.

„Ég byrjaði ungur að leika í Þjóð- og Borgarleikhúsinu, hef einnig leikið í sjónvarpi og kvikmyndum, hef talsett barnaefni, lesið inn á Storytel og unnið á Ríkissjónvarpinu sem dagskrárgerðarmaður.“

JAFET býr yfir fjölbreyttum bakgrunni en er að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni.Aðsend

Lét loks til skarar skríða

Í ár ákvað hann loks að láta af því verða að senda frá sér lag.

„Það hefur verið draumur minn lengi að gefa út mitt eigið lag og koma hugmyndum mínum á framfæri með þessum hætti. Ég hef verið mikið í kringum tónlist en faðir minn, Magnús Guðmundsson, var söngvari hljómsveitarinnar Þeyr en ég hef ekki látið til skarar skríða fyrr en nú.

Ég tel að markmiðið sé í höfn, enda yrði það einungis bónus ef að fólk leggur við hlustir og tala nú ekki um ef það hefur gaman af því í leiðinni.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.