Úkraína og Rússland framleiða bæði langmest af sólblómaolíu heimsins en rúmlega helmingur allrar sólblómaolíu heims kemur frá löndunum tveimur. Skortur hefur verið á olíunni síðan stríð ríkjanna hófst.
Einhver ríki hafa takmarkað aðgengi fólks að olíunni til þess að sporna gegn því að hún klárist alfarið. Í til dæmis Þýskalandi og Bretlandi má fólk einungis kaupa lítið magn af olíunni í einu. Í Þýskalandi hafa einhverjir tekið upp frumlegar aðferðir til að koma sér út um olíuna, til dæmis einn bar í Munchen sem leyfir nú fólki að greiða fyrir bjórinn sinn með sólblómaolíu.
„Að fá olíu er mjög erfitt. Ef þú þarft þrjátíu lítra á viku en færð bara fimmtán lítra, þá muntu á einhverjum tímapunkti ekki geta steikt snitsel lengur,“ segir Erik Hoffmann, starfsmaður barsins, í samtali við fréttaveitu Reuters.
Lítri af bjór á barnum kostar um það bil þúsund krónur en lítri af sólblómaolíu úti í búð um það bil 620 krónur. Tilboðið er því afar hagstætt fyrir gesti barsins. Hingað til hefur barinn aflað sér 400 lítra af sólblómaolíu með þessari aðferð.