Þjóðhátíð 2022 fer fram með pompi og prakt í Heimaey í lok júlí í ár. Fjölbreytt flóra íslensks tónlistarfólks mun stíga á svið og skemmta gestum en hátíðin er nú haldin í fyrsta skipti frá árinu 2019. Lífið á Vísi tekur hér púlsinn á tónlistarfólkinu og fær nánari innsýn í atriðið þeirra á Þjóðhátíð.
Hvenær fóruð þið fyrst á Þjóðhátíð?
Við vorum fyrst bókaðir sem hljómsveit 2019 þar sem við stóðum vaktina á litla sviðinu öll kvöldin.
Það er alltaf ólýsanleg orka á litla sviðinu en í ár verðum við líka á stóra sviðinu.
Hvað finnst ykkur skemmtilegast við þessa hátíð?
Stemningin og veðrið. Það skapast alltaf ótrúleg stemning þessa helgi óháð veðrum og vindum. Fólk er mætt til að skemmta sér sama hvort það sé sinningur í barðinu eða sól og 17 gráður.
Við hverju mega hátíðargestir búast þegar þið stígið á svið?
Pásulausri stemningu frá upphafi til enda og dansi inn í rauða nóttina.
Hvað er uppáhalds Þjóðhátíðarlagið ykkar?
Þau eru mörg góð en við höldum alltaf sérstaklega upp á stuðningsmannalag ÍBV, Komum fagnandi, þó það sé nú ekki eitt af þessum formlegu Þjóðhátíðarlögum.
Hvernig ætlið þið að undirbúa ykkur fyrir stóru stundina?
Við förum yfirleitt ekki á svið nema vera búnir að gufa alla sviðsjakkana og setja krem á tásurnar.