Hægt var að fylgjast með í beinni útsendingu hér á Vísi þegar boðberi jóla, IKEA-geitin, var reist. Að reisa hana tók tæpa tvo klukkutíma en að sögn Guðnýjar Camillu Aradóttur, fjölmiðlafulltrúa IKEA á Íslandi, gekk þetta eins og í sögu.
„Mennirnir eru enn þá úti, hún er nýkomin upp. Þeir eru að festa hana. Mér sýnist þetta allt hafa gengið og verið til fyrirmyndar,“ segir Guðný í samtali við fréttastofu.

Geitin hefur nokkrum sinnum í gegnum árin orðið fórnarlamb íslensks veðurs og íslenskra brennuvarga. Guðný vonar innilega að geitin fái að standa í friði í ár svo allir fái að njóta hennar fram að jólum.
„Það væri ofboðslega vel þegið ef fólk myndi finna sér eitthvað annað til dundurs. Okkur þykir mjög vænt um hana eins og svo mörgum öðrum. Við finnum það á áhuganum sem hún fær. Þetta er dýrt og hættulegt spaug,“ segir Guðný.
Sem áður verður gæsla á svæðinu þar sem geitin stendur sem passar að engum takist að brenna hana.
Hér fyrir neðan má sjá þegar kveikt var í geitinni árið 2016.