James Einar Becker er stjórnandi þáttanna, Tork gaurinn sjálfur. Hann segir Porsche Cayman vera algjört leikfang og eitt það flottasta sem er í boði.
Hægt er að sjá þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan.
Vélin fyrir miðju
James er afskaplega hrifinn af bílnum og nefnir í því samhengi meðal annars legu vélarinnar sem er fyrir miðjum bíl.
„Það getur verið erfitt að útskýra það fyrir þeim sem hafa ekki prófað þannig bíla en þyngdarpunkturinn er fyrir miðju á bílnum og það gefur skemmtilegan karakter. BMW-eigendur segja oft að einu bílarnir sem vert er að keyra séu afturhjóladrifnir og það er alveg rétt. Hinsvegar ef þeir eru afturhjóladrifnir og með vélina fyrir miðju, eins og þessi, þá erum við að tala saman.“

Fallega blár
Bíllinn sem James fékk lánaðan er fagurblár en hann segir áberandi liti fara sportbílum vel.
„Ef maður ætlar að vera á áberandi sportbílum þá verða þeir að vera litríkir. Helst bláir eða neongrænir eða álíka. Um leið og ég sá þennan gullfallega bláa bíl stara í andlitið á mér þá vissi ég að það yrði gaman.“
Bíllinn er beinskiptur og segir James skemmtilegt að smella honum í gír og hendast áfram.
„Þetta er ökumannsbíll. Þú ert tengdari bílnum þegar hann er ekki sjálfskiptur heldur beinskiptur. Það eru ekki margir takkar í mælaborðinu og ég vil ekki einu sinni kveikja á útvarpinu. Þetta er bíll sem maður vill njóta þess að keyra án þess að flækja málin.“