Menning

„Ó­líðandi og á­mælis­vert“ að vera snið­gengin

Bjarki Sigurðsson skrifar
Margrét Tryggvadóttir er fulltrúi Samfylkingarinnar í lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.
Margrét Tryggvadóttir er fulltrúi Samfylkingarinnar í lista- og menningarráði Kópavogsbæjar. Vísir/Vilhelm

Fulltrúar lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar telja sig hafa verið sniðgengna í umræðu um umsókn bæjarins um að vera útnefnd ein af menningarborgum Evrópu árið 2028. Menningar- og viðskiptaráðuneytið lét engan vita af möguleikanum í tæpa átta mánuði. 

Á fundi lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar í dag mældi ráðið með því að áfram yrði haldið með umsókn bæjarins um að verða ein af menningarborgum Evrópu árið 2028. Í umsögn ráðsins segir að mikilvægt sé að hafa hraðar hendur því verkefnið hafi borist til bæjarins með mjög skömmum fyrirvara. Umsóknarfresturinn rennur út þann 11. nóvember næstkomandi.

Í samtali við fréttastofu segir Margrét Tryggvadóttir að þessar hröðu hendur hefðu getað verið mun hægari ef menningar- og viðskiptaráðuneytið hefði látið vita af möguleikanum á að sækja um þegar það var ljóst. Hún segir málið hafa borist til ráðuneytisins í byrjun árs en ekki ratað á borð Kópavogsbæjar fyrr en í ágúst, tæpum átta mánuðum síðar. 

Þegar málið var síðan komið til bæjaryfirvalda var þó ekkert haft samband við lista- og menningarráð bæjarins heldur farið beint til bæjarráðs. Vegna þess lagði hún fram bókun á fundi ráðsins þar sem hún sagði það vera ólíðandi og ámælisvert að ráðið hafi verið sniðgengið með öllu. Aðrir fulltrúar ráðsins tóku undir með Margréti.

„Við fréttum af þessu í fjölmiðlum. Þetta er frekar nýtt ráð. Ég er eina sem var í ráðinu áður. Við erum nýbúin að samþykkja nýja menningarstefnum þar sem er ekkert um þetta talað. Þetta kemur inn og mér skilst að menningar- og viðskiptaráðuneytið hafi gleymt að láta vita að sveitarfélög á Íslandi mættu sækja um,“ segir Margrét í samtali við fréttastofu. 

Þrátt fyrir að meðlimir ráðsins hafi verið einróma sammála um að halda áfram með umsóknina sé það bagalegt að hafa ekki fengið tíma til að vinna hana og velta málinu fyrir sér. 

„Lista og menningarráð fer með menningarmál í bænum samkvæmt bæjarmálasamþykkt og samkvæmt okkar erindisbréfi. Það erum við sem samþykkjum menningarstefnu fyrir bæinn. Þetta er risaverkefni. Auðvitað þarf að gera þetta í samráði, við eigum ekki milljarð fyrir þetta. Það þarf samráð en það er mjög óeðlilegt að ræða ekki við ráðið,“ segir Margrét en í verkefnið þarf að púkka út rúmum milljarði króna. 

Alls verða þrjár borgir valdar menningarborgir Evrópu árið 2028. Ein þeirra verður í Tékklandi og stendur valið á milli Broumov og České Budějovice. Borg númer tvö verður í Frakklandi og stendur valið á milli Bastia-Corsica, reims, Rouen, Robubaix, Bourges, Clermont-Ferrand, Banlieue, Saint-Denis, Montpellier, Nice og Lens.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.