Snærós og Freyr hafa bæði getið sér gott orð í fjölmiðlabransanum. Snærós vaknar með þjóðinni eldsnemma alla virka morgna en hún er einn af þáttastjórnendum Morgunútvarpsins á Rás 2. Þar að auki hefur hún gegnt hinum ýmsu störfum innan RÚV, meðal annars sem verkefnastýra UngRÚV.
Freyr hefur verið viðloðinn blaðamennsku í sextán ár. Síðustu fjögur ár hefur hann starfað sem blaðamaður á Stundinni.
Þau Snærós og Freyr voru gestir í 81. þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása. Umsjónarmaður þáttanna er Ásgrímur Geir Logason. Í þáttunum fær hann til sín þjóðþekkta einstaklinga ásamt þeirra betri helmingi og ræðir um ástarsambandið, lífið og tilveruna.
„Ég hafði aldrei séð jafn flotta konu“
Snærós og Freyr hittust fyrst í rútu á leið norður fyrir fjórtán árum síðan. Freyr leit Snærós fyrst augum í gegnum gluggann á rútunni og varð alveg dolfallinn.
„Ég hugsaði: „Þetta er fallegasta kona sem ég hef á ævi minni séð!“ Ég hafði aldrei séð jafn flotta konu, aldrei!“
Snærós settist aftast í rútuna þar sem var mikið fjör alla leiðina. Þetta var stór hópur sem var að ferðast saman. Fólk hafði áfengi um hönd og var mikið sungið. Hún tók þó ekki eftir Frey fyrr en allt í einu þegar hann kom gangandi eftir rútunni.
„Ég man mjög vel eftir þessu, það þyrmdi yfir mig. Þetta var svona tilfinning þar sem ég hugsaði: „Þennan mann verð ég að fá“. Ég varð að eiga hann,“ en Snærós segist aldrei hafa upplifað slíka tilfinningu áður.
Á þessum tímapunkti voru þau hins vegar bæði í öðrum samböndum og segja þau stöðuna því hafa verið ansi flókna.

„Heldur þú að þetta gæti verið eitthvað?“
„Við byrjum ekkert saman fyrr en næstum því þremur árum eftir þetta, þá svona náum við saman. Það var ótrúlega fallegt augnablik.“
Það var árið 2011 og voru þau bæði stödd á tónlistarhátíðinni Eistnaflugi. Þau áttu dásamlega helgi saman á Neskaupstað en segja það þó ekki hafa staðið til að byrja saman.
Eftir þessa helgi fékk Snærós hins vegar örlagaríkt símtal frá Frey þar sem hann segir:
„Hæ, ég svíf á bleiku skýi. Heldur þú kannski að þetta gæti verið eitthvað? Þá meina ég bara að eilífu.“
Snærós svaraði um hæl: „Ertu virkilega að fatta það núna?“ og hafa þau verið saman allar götur síðan.
„Ég var aldrei búin að fantasera um eitthvað samband, en ég vissi samt bara að það væri engin leið út úr því að elska hann.“
Þau hafa nú verið saman í ellefu ár og giftu þau sig fyrir sex árum síðan. Saman eiga þau tvær dætur, en Freyr átti tvö börn fyrir.
Hér að neðan má hlusta á viðtalið við þau Snærós og Frey í heild sinni. Í þættinum ræða þau meðal annars um rómantíkina, þriðju vaktina, dvöl þeirra í New York, ásamt því að rifja upp afar pínlegt ævintýri þeirra á Ítalíu.