Geir var ráðinn til ÍA í mars 2020, um það leyti sem að kórónuveirufaraldurinn skall á, og segist skilja stoltur við félagið eftir samkomulag beggja aðila þess efnis að hann láti af störfum. Hann mun þó áfram verða félaginu innan handar næstu mánuði eins og þarf, á meðan að hann velur sitt næsta skref.
„Ég kom þegar félagið var í mjög erfiðum málum, ef við tölum um reksturinn, en núna er reksturinn í fínu jafnvægi,“ segir Geir sem varð hins vegar að horfa upp á Skagamenn falla niður úr Bestu deild karla nú í haust.
„Þetta hafa verið tvö mjög erfið ár á fótboltavellinum. En ég skil stoltur við félagið í fínu rekstrarlegu jafnvægi,“ segir Geir í stuttu samtali við Vísi.
Geir segist ekkert vita um hvað taki við hjá sér en segir aðspurður að ákvörðunin tengist ekki að neinu leyti komandi ársþingi KSÍ í febrúar.
Hætti störfum fyrir FIFA vegna Covid
Geir starfaði um langt skeið hjá KSÍ og var formaður sambandsins á árunum 2007-17 auk þess að bjóða sig aftur fram sem formaður árið 2019 en þá laut hann í lægra haldi fyrir Guðna Bergssyni. Vanda Sigurgeirsdóttir var kjörin formaður KSÍ til tveggja ára í febrúar síðastliðnum.
Eftir að hann hætti sem formaður starfaði Geir meðal annars fyrir FIFA: „Ég hætti því alveg í Covid og réði mig þá til ÍA. Ég hafði verið að vinna mikið að þróunarverkefnum í Asíu fyrir Alþjóðaknattspyrnusambandið en því var sjálfhætt þegar Covid skall á,“ segir Geir.
Geir, sem er 58 ára gamall, grínast með að þurfa kristalskúlu til að svara því hvort hann muni sinna frekari störfum fyrir FIFA eða UEFA eftir viðskilnaðinn við ÍA, en stefnir í það minnsta á að starfa áfram innan fótboltans.
„Það er ómögulegt að segja hvað framtíðin ber í skauti sér en fótboltinn er alltaf númer eitt, tvö og þrjú.“