Lífið

Geggjað jólaskreytt 45 metra mastur á Hvolsvelli

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Ef einhvers staðar er hægt að tala um risa jólaskreytingu í ár, þá er það á Hvolsvelli því þar er búið að setja jólaseríur upp í fjörutíu og fimm metra hæð á símamastri, sem þar stendur. Rúmlega kílómetri af blikkandi seríum er á mastrinu.

íbúar á Hvolsvelli segjast vera komnir með sinn eigin „Efelturn“ og hann er meira að segja jólaskreyttur.

Mastrið er frá Mílu og fékkst leyfi hjá fyrirtækinu að skreyta það en ýmsir aðilar komu að verkinu, ekki síst félagar í björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli.

„Við héldum að þetta væri óframkvæmanlegt en annað kom í ljós. Það er náttúrulega ungt fólk í sveitinni, sem er ekki lofthrædd og þau klifruðu þarna upp og settu upp allar sínar tryggingar og svo héngu þau eða dingluðu í spottum í fjóra daga á meðan þau voru að skreyta, enda voru þau með harðsperrur á hinum ýmsu stöðum á eftir,“ segir Þorsteinn Jónsson, gjaldkeri hjá Dagrenningu.

Mastrið sést úr öllum áttum og vekur mikla athygli allra, sem berja það augum, enda einskonar bæjartákn á Hvolsvelli.

„Mastrið er 45 metrar og ég held að það hafi farið hundrað tólf metra seríur, eða 1,2 kílómetra af ljósum,“ bætir Þorsteinn við.

Mastrið er 45 metra hátt og sést mjög víða með sínar blikkandi jólaseríur.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Mikil ánægja er með jólamastrið.

„Já, það á athyglina skilið og sérstaklega björgunarsveitin fyrir að hanga þarna upp í fjóra daga og gera þetta með stuttum fyrirvara. Mér finnst mastrið fallegt en mér finnst blikkandi seríurnar, þær setja punktinn yfir i-ið,“ segir Þóra Björg Ragnarsdóttir, aðstoðarmaður skipulagsfulltrúa í Rangárþingi eystra.

Þorsteinn og Þóra Björg eru mjög ánægð með hvernig til tókst með skreytinguna á mastrinu.Magnús Hlynur Hreiðarsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.