Rasmus segir að það hafi verið ljóst á seinasta stórmóti, EM í Ungverjalandi og Slóvakíu, að íslenska liðið væri með gæðin til að fara langt. Hann segir að hópurinn hafi þróast frá því að vera bara með gott byrjunarlið yfir í að vera með heilsteyptan hóp sem á sínum degi getur unnið hvaða lið sem er.
„Ég sá það á seinasta stórmóti að liðið er í hæsta gæðaflokki. Þegar íslenska liðið spilar sinn besta leik eru ekki mörg lið sem geta unnið þá. Mér finnst þið vera með mjög gott lið núna með mikið af góðum leikmönnum. Fyrir þrem til fjórum árum var Ísland með gott byrjunarlið, en núna eru þetta mun fleiri leikmenn sem geta staðið sig vel,“ sagði Rasmus
Markvarðastaðan verið vandamál áður fyrr, en nú sé öldin önnur
Þá segir Rasmus að markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson sé mikilvægt púsl í íslenska liðinu, enda hafi landsliðinu vantað markvörð í hæsta gæðaflokki undandarin ár.

„Ég held að framþróun Viktors Gísla Hallgrímssonar sé mjög mikilvæg því Ísland hefur oft verið með gott lið, en með fullri virðingu fyrir öðrum markmönnum þá hefur liðinu vantað markmann í hæsta gæðaflokki. Mér finnst Viktor Gísli hafa sýnt það á fyrri hluta tímabils með Nantes að hann getur verið einn besti markmaður í heimi þannig að nú á liðið góðan möguleika á að fara langt á heimsmeistaramótinu.“
Leiðin í undanúrslit erfið
Rasmus segir einnig að þrátt fyrir góða möguleika Íslands á mótinu þurfi liðið fyrst að fara í gegnum mjög snúinn riðil.
„Auðvitað er fullt af góðum liðum og Ísland er í erfiðum riðli. Liðið á mjög erfiðan leik strax í fyrstu umferð gegn Portúgal og ég held að það sé mikilvægt að ná í góð úrslit þar.“

„Síðan tekur við erfiður milliriðill og í átta liða úrslitum mætir Ísland líklega Danmörku eða Króatíu, kannski Egyptalandi. Þannig það verður erfitt fyrir Ísland að komast þangað, en íslenska liðið á auðvitað möguleika á að komast í undanúrslit. Það er möguleiki,“ sagði Rasmus að lokum.
Rasmus rifjaði einnig upp þegar Danmörk tapaði gegn Frökkum á seinasta stórmóti og skítkastið sem hann og aðrir Danir fengu frá Íslendingum í kjölfarið á því. Þáttinn í heild sinni má heyra hér fyrir neðan, en umræðan um möguleika íslenska landsliðsins hefst eftir rúmar 32 mínútur.