Ingibjörg leikur fyrir Pílukastfélag Hafnarfjarðar. Hún varð Íslandsmeistari kvenna í pílukasti, bæði í 501 og krikketi, auk þess að fagna sigri í tveimur umferðum í Novis-deild kvenna og í bronsdeild karla. Þá vann hún FitnessSport-meistaramótið í tvímenningi í bæði 501 og 301.
Hún var þá valin í landsliðið og keppti fyrir Íslands hönd á bæði Norðurlandamótinu og Evrópumótinu.
Matthías Örn leikur fyrir Pílukastfélag Grindavíkur og varð Íslandsmeistari í karlaflokki. Líkt og Ingibjörg vann hann tvær umferðir í Gulldeild Novis og vann í tvímenningi í 501 á FitnessSport-meistaramótinu. Einnig spilaði hann fyrir landslið Íslands á Norðurlandamótinu.
Matthías varð þá efsti Íslendingurinn á stigalista Norðurlandamótaraðarinnar og fékk keppnisrétt á stórmóti PDC, fyrstur Íslendinga. Þar mætti hann ríkjandi heimsmeistara Peter Wright, sem féll þó úr leik á yfirstandandi heimsmeistaramóti í gærkvöld. Hann varð þá einnig Íslandsmeistari félagsliða með Grindavíkurliðinu í lok árs.