Fyrirkomulag vetrarþjónustu og starfsemi vaktstöðvar Vegagerðarinnar voru til umfjöllunar á umræddum fundi í morgun. Á fundinum lýstu fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja reynslunni af starfseminni um vetur á Íslandi.
„Við sjáum þetta þannig að lokanir eru til gagns sé þeim beitt rétt. Við vitum það að vandinn hefur verið svolítið mikið að litlu bílarnir hafa verið að festast, á milli vegriða jafn vel. Þá er ekkert hægt að moka og þá fer allur peningurinn bara út um gluggann,“ sagði Harald sem fenginn var til að koma með sjónarhorn hópferðafyrirtækja, það er rútufyrirtækja, á vetraþjónustu Vegagerðarinnar.
Óveður eru tíð á Íslandi og samgöngutruflanir af völdum þeirra ekki nýjar af nálinni. Sjaldgæft er þó að jafn víðtækar samgöngutruflanir verði og gerðist fyrir jólin, þegar um þrjátíu þúsund manns lentu í vandræðum vegna ófærðar á Reykjanesbraut.
Benti Harald á að í því tilfelli hafi Reykjanesbrautin sjálf að mestu verið fær, vandamálið hafi hins vegar verið helst verið á hringtorgum þar mikill snjór safnaðist saman. Erfitt reyndist að vinna á þeim fyrir þau snjóruðningstæki sem voru í notkun. Bað hann Vegagerðina um að taka þetta til skoðunar, annað hvort við hönnun vega eða þá með því að nota sérhæfðari snjóruðningstæki. Þá kallaði hann eftir því að svokallaðri mjúklokun vega yrði beitt í meira mæli.
Fjarstýrðar slár og fjórhjóladrifnir bílar
„Við sjáum svolítið þannig að það þurfi að breyta þessum lokunum þannig að hugsanlega verði hægt að hafa mjúklokun sem fer þá mjög hratt í gang og stoppar allar vanbúna bíla,“ sagði Harald.
Benti hann á að í Noregi væri fjarstýrðum slám komið fyrir á lykilvegum sem væri þá hægt að loka með hraði þegar tilefni væri til, sem myndi þá minnka líkurnar á því að vanbúnir bílar kæmust í vandræði.
„Við getum séð það sem fulla lokun en við getum séð mjúka lokun þá með björgunarsveitum á þessum stöðum sem skipta máli, eða að Vegagerðin sjálf geri það,“ sagði Harald.

Sér hann fyrir sér að með slíkri mjúklokun væri hægt að leyfa þeim sem eru á vel búnum bílum að halda áfram.
„Þegar er búið er að gefa mjúklokun þá mega 4x4 bílar, rútur og vörubílar kannski halda áfram, svo fremi sem þeir séu fullklárir í vetrarslaginn. Það gæti til dæmis verið einhver litakóðun. Rúturnar fái á sig einhvern miða, bláan Vegagerðamiða, og þá segjum við með því að við séum fullútbunir til að ráða við þetta,“ sagði Harald.
Þá væri aðalmálið fyrir rútufyrirtæki að mokstri vær haldið áfram, svo að lokunartími væri sem stystur.
„Við þolum alveg nokkurra klukkutíma stopp, ekkert vandamál, við getum alveg sniðið okkar ferðir að því. En ef þetta er orðið langtímalokun er þetta orðið erfiðara.“
Æfa fylgdarakstur
Þá benti Harald á að ef útlit væri fyrir langtímalokun væri gott að koma upp kerfi og viðbragðsáætlun í kringum fylgdarakstur, þar sem margir bílar safnast saman og fara yfir torfæra vegi í fylgd snjóruðningstækja.
„Það þarf að æfa þetta því að þetta getur hjálpað, sérstaklega þegar það eru lengri lokanir.“
Í lok fundarins svaraði Árni Gísli Árnason, forstöðumaður vöktunar og upplýsinga hjá Vegagerðinni, vangaveltum Haralds. Benti hann á að lokunarhlið Vegagerðarinnar væru í dag þess eðlis að senda þyrfti mannskap á staðinn til að loka þeim. Því tæki það alla jafna nokkurn tíma að loka vegum.

„Þá getur það verið að valda því að fleiri lenda í erfiðum aðstæðum en kannski þyrfti að vera,“ sagði Árni Gísli.
Benti hann þó á nú væri í gangi tilraunaverkefni á Tröllaskaga á Norðurlandi, þar sem verið er að prófa fjarstýrð lokunarhlið.
„Það er ein af þessum áskorunum sem við sjáum fyrir okkur, hvernig við getum gert þetta hraðar og fyrr.“