Vakin er athygli á því á vef Stjórnarráðsins í dag að ráðuneytið hafi vorið 2019 sett af stað fimm ára átaksverkefni um nýliðun kennara.
„Útskrifuðum kennurum hefur fjölgað umtalsvert frá því að átaksverkefnið hófst. Á síðasta ári útskrifuðust 454 kennarar frá þeim háskólum sem bjóða upp á kennaranám hér á landi. Það er 160% aukning miðað við meðaltal áranna 2015–2019.“
Markmið átaksverkefnisins var að fjölga kennurum á öllum skólastigum og auka gæði náms og kennslu í íslensku skólakerfi með farsæld nemenda að leiðarljósi.

„Frá því að átaksverkefnið hófst fyrir rúmum þremur árum hefur rík áhersla verið lögð á að fjölga þeim sem velja kennaranám og auka skilvirkni námsins svo kennaranemar útskrifist á tilsettum tíma. Á þeim tíma hefur aðsókn í kennaranám farið fram úr björtustu vonum og brautskráningum fjölgað samhliða.“
Lögð hafi verið áhersla á að kennaranemar fái faglega þekkingu og reynslu af skólastarfi meðan á námi stendur með 50% launuðu starfsnámi á lokaári námsins.
„Þannig njóta þeir faglegrar leiðsagnar frá reyndum kennurum á vettvangi. Samhliða þessari áherslu hafa reynslumiklir kennarar verið hvattir til að afla sér sérhæfingar í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf.“
Kennaranemum stendur til boða að sækja um hvatningarstyrk úr sérstökum Nýliðunarsjóði sem nemur allt að 800.000kr. að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
„Með þessum hætti leggja stjórnvöld áherslu á að nemendur helgi sig náminu, ljúki því á tilsettum tíma og hefji störf við kennslu að því loknu. Enn fremur hefur starfandi kennurum sem sérhæfa sig í starfstengdri leiðsögn gefist kostur á að sækja um hvatningarstyrk sem nemur allt að 150.000kr. vegna viðbótarnáms með áherslu á starfstengda leiðsögn og kennsluráðgjöf.“