Lífið

Gulu úlfarnir koma fram í Söngva­­keppninni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Subwoolfer eru væntanlegir til landsins í mars. 
Subwoolfer eru væntanlegir til landsins í mars. 

Norska hljómsveitin Subwoolfer mun koma fram á úrslitum Söngvakeppninnar í mars. Hljómsveitin sló í gegn í Eurovision á síðasta ári með laginu Give That Wolf A Banana. 

Subwoolfer náði tíunda sæti í keppninni í fyrra og vakti hljómsveitin mikla athygli fyrir dans og stuð. Hefð hefur myndast fyrir því að gamlir erlendir Eurovision-keppendur taki lagið í Söngvakeppninni en í gegnum árin hafa listamenn á borð við Eleni Foureira, Loreen, Sandra Kim og Måns Zelmerlöw mætt. 

Miðasala á Söngvakeppnina hefst á morgun klukkan 12 á Tix.is. Um er að ræða fjóra viðburði, tvö undanúrslit, lokaæfing fyrir úrslitakvöldið og svo úrslitakvöldið sjálft. 

„Við hlökkum mikið til að fá þá. Það er óhætt að segja að þeir hafi slegið í gegn í fyrra, lagið er ekki bara grípandi heldur er atriðið sjálft, dansinn og búningarnir, mikið show. Keppnin hefur vaxið og dafnað síðustu ár og í salnum hefur myndast æðisleg stemmning þar sem allir koma til að skemmta sér og hafa gaman. Ég veit til þess að það sé orðinn árlegur viðburður hjá mörgum fjölskyldum að mæta á staðinn og njóta keppninnar,“ er haft eftir Rúnari Frey Gíslasyni, framkvæmdastjóra keppninnar, í tilkynningu. 

Íslensku lögin sem keppa í Söngvakeppninni um þátttöku í Eurovision í maí voru kynnt á dögunum og verður spennandi að sjá hvaða lag verður fyrir valinu og fer til Liverpool fyrir hönd lands og þjóðar.

Lög keppninnar í ár má hlusta á á íslensku og ensku hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.