Skýrslan dregur upp mynd af atvinnugrein sem hefur vaxið hraðar en regluverkið. Í henni er að finna metfjölda tillagna til úrbóta. Það var matvælaráðherra sem kallaði eftir skýrslunni fyrir ári síðan.
„Þetta er náttúrulega bara mjög alvarleg staða eins og við svo sem gerðum ráð fyrir og það var tilefni þess að ég óskaði eftir þessari úttekt Ríkisendurskoðunar að fara vel í saumana á þessum málum vegna þess að mér fannst ástæða til þess. Mér fannst ástæða til þess að ætla að bæði lagaumhverfið, framkvæmdin og eftirlitið og svo framvegis væri bara verulega ábótavant og það er bara niðurstaðan.“
Svandís kveðst vera ákveðin í að ráðast í breytingar.
„Nú er komið rúmlega ár og þá þurfum við að setja undir okkur hausinn og laga lagaumhverfið og tryggja það að við séum ekki í plástraviðbragði heldur séum að skoða þetta alveg í kjölinn.“
Í skýrslunni er lagt til að eldisfyrirtækin sjálf taki þátt í kostnaði við eftirlit.
„Mér finnst það alltaf spurning raunar sem við þurfum að spyrja okkur hér og þurfum auðvitað að spyrja okkur líka í sambandi við sjávarútveginn sem er annað stórt verkefni sem ég er með í gangi er það að við tryggjum að afnot af sameiginlegri auðlind, sama hvort það er hafið eða firðirnir eða hvað það er, að fyrir það hljótist eðlilegt endurgjald í sameiginlega sjóði.“
„Í yfirlýsingu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi segjast þau fagna skýrslunni og að hún staðfesti brotalamir í stjórnsýslu sjókvíaeldis. Nú sé mikilvægt að bæta úr því sem aflaga hafi farið og horfa fram á veginn.“