Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, mun leggja fram drög að stefnu um iðnaðinn í september og leggja fyrir Alþingi ný heildarlög um fiskeldi á vorþingi 2024. Hún heitir því að stjórnsýslan og eftirlit verði eflt.
Í skýrslunni er tekið undir niðurstöðu Ríkisendurskoðunar um að úrbóta sé þörf í stjórnsýslu og lagaumhverfi lagareldis. Stærsta áskorunin sé áhrif þess á umhverfið og vistkerfi sjávar, einkum er varðar opnar sjókvíar sem er algengasta framleiðsluaðferðin. Áhrif þeirra á villta laxastofna sé sérstakt áhyggjuefni.
„Í meginatriðum má segja að við þurfum að gera betur varðandi stjórnsýslu, regluverk og umhverfisáhættu en ef það er gætt að öllum þessum þáttum þá erum við í raun og veru að horfa á mjög öfluga stöð með öðrum undir íslenskum efnahag en til þess að svo megi verða þá þarf að uppfylla ákveðin skilyrði,“ segir Svandís.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að eftirlit og stjórnsýslan sé of veikburða til að fylgja eftir örum vexti sjókvíaeldis en í Boston Consulting skýrslunni kemur fram stórhuga áform séu uppi í landeldi einnig. Áætluð verkefni á Íslandi gera ráð fyrir framleiðslu upp á 105 til 125 kT þegar fullri framleiðslu er náð.
Á dögunum vakti deildarstjóri fiskeldis hjá MAST athygli á þeirri gríðarlegu uppbyggingu sem í hönd fer og benti á að niðurstaða skýrslu Ríkisendurskoðunar sé meðal annars sú að of fáu starfsfólki sé ætlað of mikið. Nú blasi við að stofnuninni verði einnig gert að tryggja dýravelferð í landeldi og því sé deginum ljósara að stofnunin þurfi mun meira fjármagn. Svandís tekur undir þetta sjónarmið.
„Jú, það er í raun og veru engin spurning. Ríkisendurskoðun horfir náttúrulega líka til lagarammans og regluverksins. Það skortir reglu, ramma og utanumhald varðandi möguleikana í lagareldi og ég tala nú ekki um úthafseldinu en í öllum þessum greinum þá þurfum við að bæta í hvað varðar eftirlit og sérstaklega eftirlit með þessum dýravelferðarmálum og auðvitað til þess að koma í veg fyrir smit og strok og svo framvegis og það þýðir einfaldlega, eins og þú bendir á, meiri mönnun og aukið fjármagn.“
Svandís hefur í hyggju að leggja fram stefnudrög um iðnaðinn í september og leggja fyrir Alþingi ný heildarlög um fiskeldi á vorþingi 2024 - á meðal tillagna verði sterkari stjórnsýsla.
„Já, það er engin spurning,“ segir Svandís sem heldur áfram:
„Það er algjörlega kominn tími til að ná almennilega utan um þennan ört vaxandi atvinnuveg og við verðum að stilla þetta þannig af að samfélagið sé með þessa sameiginlegu sýn fyrir okkur öll, hvert við viljum fara, frekar en að elta iðnaðinn með veikburða regluverki.“