Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Mér finnst tíska geta verið svo RISASTÓR partur af persónuleika manns og algjör synd að nýta þann part ekki til fulls. Það er hægt að tjá sig svo mikið í gegnum tísku og fataval! Hver hefur ekki lent í því að sjá einhverja flík eða klæðast flík og fá fiðrildi í magann?

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Það fer mjög eftir deginum, núna í dag held ég mikið upp á blómaskyrtu sem ég fann í febrúar. Mér finnst hún alveg æðisleg og ég elska flottar skyrtur, það spice-ar svo mikið upp á annars klassískt lúkk.
Það eina við hana er að hún er svolítið þröng á mig en það býður bara upp á ný tækifæri, Sexy-Kjalar fær að skína í gegn.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Að meðaltali nei. Ég á nokkrar go-to flíkur en ég get alveg orðið fastur í því að velja hverju ég klæðist.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Auðveldasta orðið til þess er litir. Ég þoli ekki að vera litlaus og vil helst alltaf vera í að minnsta kosti einu litríku. Mér finnst gaman að ögra norminu og fara líka sjálfur út fyrir þægindarammann.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Jahá! Ég pældi ekki neitt í tísku alveg þar til ég varð svona átján eða nítján ára, þá var mér alltaf nokkurn vegin sama um það sem ég klæddist. Var meira að segja kominn í þær pælingar að vera bara mínimalisti hvað varðar fataskápinn, eiga bara nokkrar gallabuxur og svarta og hvíta stuttermaboli.
En svo fattaði ég fljótlega að mig langaði í mun meira en það. Þá byrjaði ég að skoða nytjamarkaði meira og á um tveimur árum færðust öll mín kaup á fötum þangað.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Ég held ég fái allan minn innblástur frá fólki í kringum mig, bæði sem ég þekki og fólk sem ég sé úti á götu.
Mér finnst mjög áhugavert og gaman að sjá hverju fólk er að klæðast.
Ég þekki voða lítið til tískuheimsins og kannast við engar persónur þaðan svo að það er lítið gagn í því að spyrja mig um nöfn.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Held það eina séu skinny-jeans, ég braut þá reglu margoft á mínum fyrstu menntaskólaárum og ætla sko ekki að gera það aftur.
Annars leyfi ég mér hvað sem er.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Það hljóta að vera rauðu glimmer jakkafötin mín, ég útskrifaðist í þeim úr menntaskóla og klæddist þeim svo í undanúrslitunum í Idolinu líka. Ég ákvað áður en ég útskrifaðist að ég ætlaði sko ekki að falla inn í hópinn og vera í svörtum/bláum/gráum jakkafötum heldur fann ég þessi rauðu og sló til.
Ég var svo heppin að þau smell pössuðu á mig og gat ég setið og glansað innan um restina af útskriftarhópnum.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Hættu að pæla í hvað öðrum finnst, þinn stíll er einstakur og það lúkkar á þér sem lúkkar á þér.

Hér er hægt að skoða Kjalar á Instagram.