Ekki hefur verið boðað hvenær kynningin muni fara fram.
„Hvenær hún verður veit ég ekki nákvæmlega, fjármálaráðuneytið er auðvitað með þetta í sínum höndum og það er held ég bara verið að slá þessu inn í kerfið eins og sagt er. Ég held að þetta snúist nú fyrst og fremst um það, að það gengur hægar en menn gerðu ráð fyrir,“ segir Bjarkey.
Það sé ákveðið tímaspursmál að nefndin geti tekið málið fyrir.
„Fjárlaganefndin þarf auðvitað tíma og þess vegna þarf þetta að fara að koma fram sem allra fyrst, það er engin launung á því. Við erum líka bara fyrst og fremst að senda málið út til umsagnar, ræða það í þinginu og fá hagaðila til þess að koma með athugasemdir á þetta. Síðan taka auðvitað við heimsóknir eins og hefðbundið er þannig við afgreiðum þetta einhvern tímann undir vorið,“ segir Bjarkey.
Efnahagsmálin hafa verið áberandi í umræðunni undanfarið í ljósi mikillar verðbólgu og stöðugra stýrivaxtahækkana. Margir hafa kallað eftir aukinni aðkomu stjórnvalda en innihald fjármálaáætlunar liggur ekki fyrir.
„Ég tel að það hljóti að þurfa að endurspegla bæði tekjuöflun og aðhald í ríkisfjármálum. Við þurfum að einbeita okkur líka að því að ná niður hallanum, og auðvitað verðbólgunni líka, til að koma okkur á réttan kjöl. Það er forgangsmál,“ segir Bjarkey.