Hér má sjá þáttinn:
„Ég er mjög mikið að mála sálarlíf mitt, það er partur af þessari hugleiðslu sem ég dett inn í. Þetta gæti virkað eins og teiknimyndafígúrur sem ég er bara eitthvað að bulla en þetta er voða mikið ég og það í hvernig líkamlegu eða tilfinningalegu standi ég er hefur áhrif á það hvernig myndirnar verða til og hvað er að gerast á myndunum,“ segir Baldur um listsköpun sína.
Taugaáfall að mæta á sýningar
Baldur er óhræddur við að vera berskjaldaður í list sinni en segir þó geta verið erfitt að afhjúpa verk sín.
„Það er alltaf taugaáfall að mæta á sýningar. Sérstaklega til að byrja með, þá er fólk bara: Hvað í andskotanum eru þessi málverk hérna,“ segir Baldur kíminn og bætir við:
„En þegar ég byrjaði að leyfa mér að vera meira berskjaldaður í verkunum þá fóru þau líka að verða betri.
Það var tímabil þar sem viðfangsefnin mín voru öll háskælandi og það var staðurinn sem ég var á í lífinu á þeim tíma. Þetta er mest megnis ég að vinna úr tilfinningum og reyna að setja þær í málverkið.“

Betri manneskja þökk sé myndlistinni
Aðspurður hvort listsköpunin geti þá virkað vel sem þerapía svarar Baldur:
„Stundum, en stundum getur það alveg rústað manni. Þegar að karakterarnir voru háskælandi þá var ég stundum bara háskælandi að mála þessi verk.
Ég held samt að ég sé betri manneskja frá degi til dags eftir að ég hef fengið að vera í stúdíóinu að tækla þetta, að fá að mála þessar myndir.“
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.