Lífið

Er til­­­­búinn fyrir Euro­vision sviðið en leynd hvílir yfir laginu

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Daði Freyr fær loksins að stíga á Eurovision sviðið þann 13. maí.
Daði Freyr fær loksins að stíga á Eurovision sviðið þann 13. maí. Baldur Kristjánsson

„Ég er mjög spenntur. Ég er náttúrlega búinn að vita af þessu núna í smá stund og búinn að undirbúa dálítið og þetta er að verða tilbúið,“ segir tónlistarmaðurinn Daði Freyr sem fær loksins stíga á Eurovision sviðið þann 13. maí næstkomandi.

Greint var frá því á mánudaginn að Eurovision-farinn Daði Freyr myndi stíga á svið á úrslitakvöldi Eurovision í ár. Keppnin er að þessu sinni haldin í Liverpool og er það söngkonan Diljá Pétursdóttir sem keppir fyrir Íslands hönd með laginu vinsæla Power.

Daði og Gagnamagnið voru fulltrúar Íslands í Eurovision árið 2020. Lag þeirra Think About Things var talið eitt sigurstranglegasta lagið í keppninni. Vegna útbreiðslu kórónuveirunnar var keppninni hins vegar aflýst og steig Daði því aldrei á svið.

Ári síðar fengu Daði og Gagnamagnið annað tækifæri í Eurovision og kepptu þá með laginu 10 Years. Óheppnin var þó ekki hætt að elta þau, því einn meðlimur hljómsveitarinnar greindist með Covid-19 og steig hljómsveitin því aldrei á svið. Þess í stað var notuð upptaka frá æfingu hópsins sem skilaði Íslandi 4. sæti. Það er næstbesti árangur sem Ísland hefur náð í Eurovision.

Árið 2021 kepptu Daði og Gagnamagnið í Eurovision með laginu 10 Years. Þau stigu þó aldrei á svið, sökum þess að einn meðlimur hljómsveitarinnar greindist með Covid. Þess í stað var notuð upptaka frá æfingu hópsins.Getty/Dean Mouhtaropoulos

Flytur lag frá Liverpool en setur það í Daðabúning

Nú er hins vegar komið að því að Daði fái loksins að stíga á Eurovision sviðið. Hann mun koma fram á úrslitakvöldinu ásamt fleiri fyrrum Eurovision-kempum, má þar meðal annars nefna hina sænsku Corneliu Jakobs og hina ísraelsku Nettu. Um er að ræða sérstakt lokaatriði á úrslitakvöldinu sem nefnist Liverpool Songbook og má gera ráð fyrir því að öllu verði tjaldað til.

„Ég tek bara eitt lag, frá Liverpool,“ sagði Daði í viðtali í Bítinu í morgun.

Daði má lítið segja um atriðið en segist þó vissulega ætla að setja lagið sem hann mun flytja í „Daðabúning“. „Ég geri ekkert nema gera það,“ segir hann.

Eins og áður segir mun Daði koma fram ásamt fleiri Eurovision-stjörnum og er Daði að fara að hitta þær allar í fyrsta skipti.

„Ég náttúrlega hitti ekkert af þessu liði þannig séð. Ég fór ekki 2020 og síðan vorum við mest bara inni á hóteli og okkur var haldið svolítið í sundur 2021,“ segir hann og viðurkennir að það hafi verið afar leiðinlegt að hanga inni á hótelherbergi á meðan allir voru að halda upp á Eurovision.

Tilbúinn fyrir stóra sviðið

Daði Freyr er orðið stórt nafn í Eurovision heiminum. Hann á orðið stóran Eurovision-aðdáendahóp og mun brátt fá að spila fyrir alla Evrópu á stóra sviðinu. Aðspurður hvort það sé ekki skrítin tilfinning fyrir sveitastrákinn segir hann:

„Ég veit það ekki. Ég er búinn að vera svo mikið inni í þessu að mér finnst þetta bara frekar eðlileg þróun. Ég er meira að spá í allt í kringum þetta. Við Árný ætlum að vera alla vikuna í Liverpool að prómóta og plögga og gera alls konar. Ég er eiginlega meira þar heldur en að vera að spá í því hvernig það verður að standa á sviðinu og syngja. Ég er tilbúinn í það.“

Það hefur verið mikið að gera hjá Daða undanfarið, of mikið að eigin sögn. Hann var að spila út um allt og segist hann til að mynda hafa misst af afmælisdögum beggja barna sinna.

„Ég spilaði eiginlega aðeins of mikið fannst mér. Þetta var aðeins meira en mig langar að gera,“ segir hann. Árið í ár verður því ögn rólegra. Eftir Eurovision taka við nokkrar tónlistarhátíðir í sumar, mánaðarlangt tónleikaferðalag í september og annað tónleikaferðalag í lok árs.

Hér fyrir neðan má hlusta á viðtalið við Daða í heild sinni.


Tengdar fréttir

Seinheppni Árnýjar og Daða Freys heldur áfram

Eurovision-parið Árný Fjóla Ásmundsdóttir og Daði Freyr Pétursson þarf að finna sér nýtt húsnæði sem allra fyrst í Berlín í Þýskalandi. Stóra lekamálið í íbúð þeirra hefur dregið dilk á eftir sér.

Næst­besti árangur Ís­lands frá upp­hafi

Daði og Gagnamagnið enduðu í fjórða sæti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, með lagið 10 Years. Um er að ræða næstbesta árangur Íslands í keppninni frá upphafi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.