Samningurinn sem var undirritaður 12. Júlí 2021 gerir ráð fyrir að byggðar verði minnst fjögur þúsund íbúðir á hverju ári næstu fimm árin og 3.500 íbúðir á ári næstu fimm ár eftir það. Í samningnum var einnig lögð áhersla á að 30% íbúðanna yrðu hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði, um 1.200 íbúðir árlega.
Samband íslenskra sveitarfélaga sem eru aðili að rammasamningnum birtu 24. apríl síðastliðinn umsögn um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar að fjármálaáætlun næstu ára. Í umsögninni segir að um sé að ræða „fullkominn forsendubrest“ þar sem rammasamningurinn er „verulega vanfjármagnaður“ og nauðsynlegt sé að hækka stofnframlög umtalsvert.
Fram kemur í umsögninni að til að efna samninginn þyrftu stofnframlög að vera samtals 44 milljarðar króna næstu fimm árin og lánveitingar 188 milljarðar. Í fjármálaáætluninni sé hins vegar aðeins gert ráð fyrir stofnframlögum í heild að fjárhæð 18,7 milljörðum og að veitt verði lán upp á 20 milljarða á ári.
„Verði þessi reyndin blasir við að íbúðaþörf næstu ára verði alls ekki fullnægt með fyrirsjáanlegum áhrifum á íbúðaverð og þar með verðbólgu,“ segir undir lok umsagnarinnar.
„Var þetta bara enn eitt Framsóknarblöffið í húsnæðismálum“
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar vakti máls á því í fyrri umræðu um fjármálaáætlun þann 31. mars síðastliðinn að rammasamningurinn væri vanfjármagnaður og að ríkið væri að senda skaðleg skilaboð til sveitarfélaga, uppbyggingaraðila og fólksins í landinu.
„Blekið er varla þornað af rammasamkomulaginu og ríkisstjórnin virðist bara strax búin að gefast upp. Var þetta bara enn eitt Framsóknarblöffið í húsnæðismálum, enn eitt dæmið um að blásið sé í herlúðra sem reynist svo engin innstæða fyrir?“ sagði hann í ræðu sinni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur svarað því til að ekki sé raunhæft að samningsmarkmið um íbúðauppbyggingu á samfélagslegum forsendum verði uppfyllt fyrr en eftir nokkur ár.
„Þessi markmið um 4.000 íbúðir og allt að 35% íbúða, þ.e. 30% sem eru þá byggðar sem almennar íbúðir eða með hlutdeildarlánum og svo 5% að auki í félagslega kerfinu sem gerir um 1.400 íbúðir — við sjáum ekki fram á að við náum þessu að fullu fyrr en kannski 2026 eða 2027,“ sagði hann í umræðum um fjármálaáætlun 17. apríl síðastliðinn.
„Við teljum okkur í dag vera nægjanlega fjármögnuð með þessa 4 milljarða í stofnframlögum í ár og næsta ár til að geta byggt það sem einfaldlega verður raunhæft að geta byggt.“ Í stað þeirra 1.200 hagkvæmu íbúða sem var talað um í samningnum sé því frekar um 400 íbúðir að ræða.