Stóra stundin nálgast óðfluga. Diljá stígur sjöunda á svið í Eurovision-höllinni í Liverpool í kvöld og við fáum úr því skorið hvort lag hennar Power verði meðal tíu framlaga sem komast áfram á úrslitakvöldið á laugardag.
Eurovísir hitti Diljá að loknu lokarennsli í Liverpool í gærkvöldi. Diljá steig þar á svið fyrir fullum sal en einnig fyrir dómnefndir keppninnar. Þó að aðeins símakosning gildi í kvöld verður það rennslið í gærkvöldi sem dómarar leggja til grundvallar við mat á lögunum sem komast áfram í úrslit. Þá gilda atkvæði dómnefndar og símakosning til jafns, 50/50.
Viðtalið við Diljá í fjórða þætti Eurovísis byrjar á mínútu 2:03. Diljá ræðir meðal annars tæknilega örðugleika á ögurstundu, stuðninginn frá Íslandi, veðbanka og fundinn við Loreen.
Gerir sitt besta sama hvað
Tæknilegir örðugleikar settu örlítið strik í reikning Diljár á rennslinu. Snúningspallur sem hún stígur upp á sat pikkfastur, eins og Eurovísir greindi frá í gærkvöldi. En því verður kippt í lag og Diljá segist raunar aldrei hafa sungið Power jafnvel og í gær.
Þegar þetta er ritað situr Diljá í 28. sæti í veðbönkum og hefur þannig hoppað upp um eitt sæti nú í aðdraganda undanúrslitanna. En 28. sætið myndi ekki skila henni áfram á lokakvöldið. Sjálf veltir Diljá sér ekkert upp úr slíku.
„Nei, ekki neitt. Ég geri mér grein fyrir að það breytir gjörsamlega engu hvernig ég ætla að performa eftir því hvernig mér er spáð. Ég geri alltaf mitt besta, hvort sem mér er spáð fyrsta eða seinasta sæti væri ég aldrei að breyta hvernig ég ætla að gera mitt. Þannig að ég veit ekkert hvernig ég stend í veðbönkum og ég er bara að segja hundrað prósent sannleikann.“
Þá þakkar hún Íslendingum kærlega fyrir stuðninginn, sem hún hélt ekki endilega að væri sjálfgefinn.
„Ég er bara búin að upplifa stuðning frá Íslandi. Sem er geggjað. Það var alveg búið að vara mig við Íslendingum, ég fékk viðvaranir. En það er bara hrein ást. Ég kann mjög mikið að meta það.“
Eurovísir er þáttur um Eurovision - á Vísi! Við kryfjum keppnina, komandi og liðnar, og eltum okkar fólk út til Liverpool. Fyrri þætti má nálgast hér.