Í fréttatilkynningu segir:
„Þjóðarímynd Íslands er að breytast með auknum fjölda fólks af erlendum uppruna og íslensk mannflóra er fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr. Ljósi er varpað á erfiðleikana sem fólk af erlendum uppruna mætir í íslensku samfélagi og fjallað um kosti fjölmenningar.
Í þáttunum tekur Chanel viðtöl við fjölda fólks af erlendum uppruna sem og sérfræðinga á ýmsum sviðum. Þættirnir eru þó ekki einungis ætlaðir til að fræða áhorfendur um reynsluheim fólks af erlendum uppruna á Íslandi, heldur einnig sem ferskur blær inn í umræðu sem virkar oft pólaríseruð.“

Þættirnir eru sýndir á RÚV og segir Chanel orkuna hafa verið ótrúlega góða á frumsýningunni.
„Við sýndum fyrstu tvo þættina fyrir viðmælendurna, fjölskyldur okkar, vini og fleiri og fengum frábærar viðtökur.
Gestirnir voru því mörg af erlendum uppruna og ég hreinlega veit ekki hvort ég hafi einhvern tímann verið í rými þar sem við erum einmitt í meirihluta, þetta var alveg einstakt.
Það var virkilega gaman að sjá alla viðmælendurna aftur en tökurnar fóru fram fyrir rétt rúmlega ári síðan. Tónlistarmaðurinn SNNY og plötusnúðurinn Vikram Pradhan sáu um að þeyta skífum meðan að við skáluðum við gestina eftir sýninguna, sem var vel við hæfi þar sem nýjasta plata SNNY er soundtrackið í þáttunum.“

Hún bætir við að það sé ólýsanleg tilfinning að sjá þessa þáttaseríu fara af stað.
„Ég er vægast sagt í spennufalli. Viðtökurnar hafa farið fram úr öllum mínum væntingum og það virðist vera að við séum að ná til mjög fjölbreytts hóps, bæði eldri og yngri kynslóða.
Markmiðið okkar með þáttunum er ekki að yfirheyra fólk, heldur að bjóða það velkomið inn í þetta samtal. Við veltum alls kyns steinum en setjum reynslusögur viðmælenda okkar fram í fyrsta þætti. Ég er full af þakklæti fyrir þau en án þeirra og traustsins sem þau sýndu okkur þá hefði þetta ekki verið hægt.
Næsti þáttur heitir „En hvaðan ertu?“ og ég er mjög spennt að heyra hvað fólki finnist um hann. Við förum statt og stöðugt nánar ofan í saumana á ólíkum viðfangsefnum sem tengjast reynsluheimi fólks af erlendum uppruna á Íslandi eftir því sem þættirnir líða.“
Hér má sjá vel valdar myndir úr frumsýningarteitinu:














