Álftanes sigraði 1. deild karla í körfubolta í vor og mun leika í deild þeirra bestu á næstu leiktíð. Ekkert er til sparað og hefur liðið sankað að sér frábærum leikmönnum að undanförnu. Nú hefur það fengið vægast sagt spennandi viðbót frá Bandaríkjunum.
Douglas Wilson er 2.01 metri á hæð og kemur frá South Dakota State-háskólanum. Hann spilar stöðu miðherja eða kraftframherja og var að meðaltali með 17 stig í leik á sínum þremur leiktíðum fyrir South Dakota State.
„Wilson hefur það á afrekaskrá sinni að hafa verið valinn besti leikmaður Summit-deildarinnar í Bandaríkjunum, sem er öflug háskóladeild. Það gerði hann strax á sínu fyrsta ári í skólanum. Á þriðja ári sínu var hann svo valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í deildinni er hann leiddi South Dakota State til sigurs,“ segir í tilkynningu nýliðanna.
Wilson samdi við lið í Frakklandi fyrir síðustu leiktíð en í læknisskoðun þar vildu læknar gera frekari rannsóknir á hjarta leikmannsins þar sem það þótti heldur stórt. Fór hann því heim í öll þau próf sem þurfti til að ganga úr skugga um að allt væri með felldu. Sú er raunin og hefur Wilson því atvinnumannaferilinn með Álftanesi. Hann er vægast sagt spenntur að hefja leik.
„Mér er það mikill heiður og það er mikil blessun að fá tækifæri að leika með Álftanesi. Ég get ekki beðið eftir því að komast þangað og byrja að leggja mig fram,“ segir Wilson um komuna til Íslands.
„Við erum mjög spennt fyrir komu hans á Álftanesið. Þetta er leikmaður sem hefur hjálpað liðum sínum, bæði í Háskólaboltanum og í Junior College, að ná sögulegum árangri. Hann er virkilega fær leikmaður og passar vel inn í okkar leikstíl,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari liðsins um nýjustu viðbótina.