Nokkurs konar kapphlaup á sér nú stað á samfélagmiðlamarkaði þar sem fyrirtæki reyna að nýta sér ófarir Twitter undir stjórn auðkýfingsins Elons Musk. Meta, stærsta samfélagsmiðlafyrirtæki í heimi sem á bæði Facebook og Instagram, kynnti Threads til sögunnar í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar í vikunni.
Threads svipar til Twitter sem byggist á tiltölulega stuttum textafærslum. Hámarksfjöldi stafabila á Threads er 500, umtalsvert meira en 280 stafabilin á Twitter. Þar er einnig hægt að deila hlekkjum, myndum og allt að fimm mínútna löngum myndböndum.
Meta hefur sagt írskum persónuverndaryfirvöldum að þau hafi engin áform um að setja Threads á evrópskan markað í bili. Höfðustöðvar Meta í Evrópu eru á Írlandi. Fyrirtækið vísar til óvissu um regluverk fyrir ákvörðun sinni um að láta evrópska markaðinn sitja á hakanum.
Samkvæmt upplýsingum um Threads-forritið í forritaverslun Apple getur það safnað upplýsingum um heilsu, fjármál, tengiliði, netvafur, leitarsögu, staðsetningu, kaup og önnur viðkvæm mál.
Twitter hefur átt í töluverðum erfiðleikum upp á síðkastið. Nú síðast greip Musk til þess ráðs að takmarka hversu mörg tíst notendur gætu skoðað á einum degi. Þá ætlar Twitter nú að byrja að rukka notendur fyrir þjónustu sem hefur verið endurgjaldslaus um árabil.