Verkið segir frá tveimur mönnum sem lenda í seinkun á flugi á Keflavíkurflugvelli. Þeir eru á ólíkum stað í lífinu og á þeim klukkutímum sem þeir þurfa að hanga á vellinum taka þeir tal saman og spegla sig hvor í öðrum. Hjónabandserfiðleikar, flughræðsla, áskoranir í barnauppeldi, endalausar tækninýjungar og hinn óumflýjanlegi eftirlaunaaldur eru meðal þess sem þeir taka fyrir.

„Við erum að fjalla um þessi verkefni í daglegu lífi sem við erum öll að fást við, álagið, fjölskyldan, vinnan, hjónabandið og krakkarnir, heilsan og það að eldast. Fólk á að geta séð sig sjálft í verkinu og viðtökurnar hafa verið hreint frábærar. Þetta er í tíunda sinn sem við Siggi vinnum saman en samt í fyrsta sinn sem við leikum tveir saman á sviðinu. Fram að þessu höfum við sett upp einleiki þar sem ég leikstýri honum eða hann mér og má segja að við höfum verið brautryðjendur í því á Íslandi,“ segir Bjarni en meðal sýninga sem þeir félagar hafa unnið að eru Hellisbúinn sem gekk frá árinu 1998 til 2001, Haukurinn, Pabbinn, Afinn og Maður sem heitir Ove svo aðeins nokkrar séu nefndar.
„Ég held að varlega áætlað hafi sýningar okkar selt um 300.000 miða í heildina. Nokkrar af þessum sýningum hafa verið sýndar í sjónvarpinu og þá kom Hellisbúinn út á VHS á sínum tíma og var hægt að kaupa hann með pylsupökkum. Við höfum einnig gert bíómynd,“ segir Bjarni. Samvinna þeirra tveggja gangi einstaklega vel.

„Ég hlakka alltaf til að vinna með Sigga, það er gaman að vera saman í þessu. Leikhús er samvinna og oft breytast hlutirnir í æfingaferlinu og aðlagast. Svo snýst þetta ekki síst um frásagnarstílinn, hjá okkur er þetta afslappað sambland af söguleikhúsi og uppistandi, við tölum við áhorfendur og leikum fram og til baka. Það bætist alltaf eitthvað við í hverri sýningu og engin sýning er eins. Við förum með fólk í ferðalag.
Sýningar hefjast nú aftur í Hörpu þann 16. september eftir sumarfrí. Þá munu þeir félagar einnig ferðast með sýninguna um landið og verða í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 7. október, í Valaskjálf á Egilsstöðum 31. október, Höllinni í Vestmannaeyjum 28. október og í Hofi á Akureyri þann 11. nóvember.