Frá þessu er greint á heimasíðu KA í dag en þar segir að Þorsteinn Már sé einarður stuðningsmaður KA og hafi fylgt félaginu eftir frá unga aldri, bæði sem keppnis- og stuðningsmaður.
Sjálfur lætur Þorsteinn Már hafa það eftir sér, í tilkynningu KA að honum þyki afskaplega vænt um að vera heiðursgestur félagsins á þessum stóra degi.
„Og ætla að njóta dagsins eins og allt stuðningsfólk félagsins,“ segir Þorsteinn Már í tilkynningu KA.
Hann hvetur stuðningsmenn félagsins til þess að fjölmenna á leikinn og hvetja Norðanmenn áfram og er með það á hreinu hvernig hann mun undirbúa sig fyrir þennan mikilvæga leik fyrir félagið.
„Ég kem eflaust til með að hringja nokkur símtöl um morguninn og fara yfir málin með góðum vinum og svo spáir maður og spekúlerar í leikskipulagi fram og til baka. Ég mæti örugglega snemma í Laugardalinn og tek þátt í gleðinni sem þar verður ríkjandi.“
Hann spáir KA 3-1 sigri en á leið sinni í úrslitaleikinn hefur liðið lagt af velli Uppsveitir, HK, Grindavík og nú síðast Breiðablik í undanúrslitum.