„Við eftirlit á skemmtistað í miðbænum kom í ljós að of margir gestir voru inn á staðnum auk þess sem fólk undir lögaldri var þar að skemmta sér,“ sagði í dagbókarfærslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á sunnudagsmorgun.
Heimildir Vísir herma að um skemmtistaðinn B hafi verið að ræða og sjónarvottar hafa lýst því hvernig Sverrir Einar var leiddur út af staðnum í járnum.
Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta um hvaða skemmtistað var að ræða.
Keypti staðinn í júní og hefur tvisvar ratað í fréttir
Sverrir Einar keypti staðinn ásamt Vestu Minkute, unnustu sinni, í júní síðastliðnum. Yfirlýst markmið þeirra var að endurvekja þá stemmingu sem ríkti á fyrri útgáfu staðarins sem var starfræktur frá fyrsta áratug aldarinnar sem gekk undir nafninu B5.
Athygli vakti í ágúst þegar greint var frá því að staðurinn mætti ekki heita B5, eins og stóð upphaflega til.
Samkvæmt skráningu Hugverkastofu er vörkumerkið B5 í eigu KG ehf. og hafði því verið notað í heimildarleysi frá því að eigendaskipti urðu á skemmtistaðnum. Þá var nafni staðarins breytt úr Bankastræti Club í B5.
Þá brugðu nýir eigendur á það ráð að endurnefna staðinn einfaldlega B.
Ekki hefur náðst í Sverri Einar við vinnslu fréttarinnar.
Uppfært klukkan 08:30
Sverrir hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem hann segist ekki sáttur við framgöngu lögreglu.