„Þetta er ekkert venjulegur viðburður, þetta er eitthvað sem enginn hefur séð áður. Við erum með Hörpuna út af fyrir okkur. Þarna verðum við með landslið listamanna með okkur, tónlistarfólk, rithöfunda og alla bestu vini okkar. Þarna verður Bubbi Morthens vinur okkar með sturlað atriði sem enginn hefur séð áður. Þá er Bubbi að búa til nýtt lag fyrir okkur,“ sagði Guðni Þorbjörnsson, sambýlismaður Guðbergs fyrir athöfnina.
Athöfnina í heild sinni má sjá hér að neðan.
Athöfnin var sett upp sem „hinsta listaverk“ Guðbergs, að sögn Guðna. Séra Sigfinnur Þorleifsson stýrði kveðjustundinni og auk áðurnefnds Bubba Morthens komu meðal annarra fram Ragnar Jónasson, Steinunn Sigurðardóttir og Jóhann Páll Valdimarsson.
Bubbi Morthens fór með ræðu og söng lagið Ísbjarnarblús.
Jón Kalman Stefánsson rithöfundur tók til máls. Hann ræddi skáldskapinn og sagði sögur af Guðbergi.
Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstjóri fór með ræðu. Hún ræddi kvikmyndina Svaninn, sem er byggð á samnefndri bók Guðbergs.
Í ræðunni sinni talaði Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi um samstarf sitt með Guðbergi.
Birna Bjarnadóttir bókmenntafræðingur tók einnig til máls og minntist Guðbergs.
Myndir frá athöfninni má sjá hér að neðan.











