Í fyrradag fengu stjórnendur Landspítala póst þar sem greint var frá því að þann 1. nóvember verði gjaldskylda lögð á bílastæði starfsfólks við Hringbraut og hjá Landakoti.
Í póstinum segir að um sé að ræða breytingu í takt við umhverfis- og loftslagsstefnu Landspítala sem hefur það að markmiði að draga úr bílaumferð og hvetja til grænni samgöngumáta. Þá segir jafnframt að þetta sé gert til að sporna við mikilli ásókn í bílastæðin við spítalann, en þau eru yfirleitt þétt setin.
Líkja breytingunni við launaskerðingu
Gjaldið sem starfsmenn þurfa að greiða er ekki ýkja hátt, þúsund krónur á mánuði í umsýslugjald með boðgreiðslum - eins og það er orðað í tilkynningunni. Starfsmenn sem fréttastofa hefur rætt við segjast ósáttir við áformin. Málið snúist ekki um fjárhæðir, heldur sé um prinsippmál að ræða.
Þá hafa rúmlega 400 starfsmenn skrifað undir undirskriftalista þar sem gjaldinu er mótmælt. Ein segir ósanngjarnt að starfsmenn spítalans þurfi að greiða fyrir stæði á meðan aðrir ríkisstarfsmenn á borð við þingmenn leggi bílnum frítt.

Aðrir segir það skjóta skökku við að ekki sé hlúið betur að aðgengismálum þeirra sem þurfi að sinna neyðarþjónustu í öllum veðrum. Og þá segja nokkrir að strætó gangi ekki á þeim tímum sem þeir þurfi í vinnu og ekki á allra færi að ganga eða hjóla þangað.

Furða sig á því að gjaldtakan nái ekki til allra
Þá vekur það einnig athygli að þrátt fyrir göfug umhverfismarkmið sé ekki fyrirhugað að hefja gjaldskyldu við Skaftahlíð þar sem stjórnendur og skrifstofufólk spítalans starfar. Þá segja starfsmenn ekki standa til að hefja gjaldskyldu við spítalann í Fossvogi.
Skömmu eftir að fréttastofa leitaði viðbragða hjá Landspítalanum sendi samskiptastjórinn út tilkynningu til starfsmanna um að ákvörðun um gjaldskyldu yrði frestað og að fara verði betur yfir málið á starfsmannafundi. Óvíst er því hvað verður en spítalinn vildi ekki tjá sig frekar um málið.