Terbútalín fannst í blóði leikmannsins eftir lyfjapróf sem var framkvæmt í október 2022, þegar Gómez var leikmaður Sevilla á Spáni. Lyfið veldur vöðvaslökun í lungnaberkjum, víkkar með því öndunarveginn og auðveldar öndun í keppnisleikjum.
Félagið sem hann gekk til liðs við í september, AC Monza, hefur staðfest bannið á X-síðu sinni eftir tilkynningu frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu FIFA.
COMUNICATO UFFICIALE AC MONZA ▶️ https://t.co/7vXu0QqgEU pic.twitter.com/i6Dz10RjCB
— AC Monza (@ACMonza) October 20, 2023
Í tilkynningunni segir að leikmaðurinn fái tveggja ára bann frá öllum keppnum eftir rannsókn á vegum sambandsins. Brotið kom í ljós þann 20. október 2022 eftir leik Sevilla gegn Valencia í spænsku úrvalsdeildinni.
Gómez var leikmaður Atalanta á Ítalíu til margra ára áður en hann fluttist til Sevilla árið 2020 eftir ósætti við þjálfara liðsins, þessi 35 ára gamli leikmaður rifti svo samningnum við spænska félagið í september og fluttist aftur til Ítalíu þar sem hann spilaði tvo leiki áður en dómur var úrskurðaður.
Hann varð Evrópudeildarmeistari með Sevilla og heimsmeistari með Argentínu á síðasta tímabili. Félagslið leikmannsins og argentíska landsliðið eru þó ekki í hættu á að þeir titlar verði dæmdir af þeim, til þess þyrftu tveir leikmenn úr öðru hvoru liðinu að vera dæmdir sekir um lyfjamisnotkun.
Gómez hefur sjálfur neitað sök og sagt efnið hafa borist til sín án hans vitundar í gegnum hóstasaft barna sinna.