Þeir skora jafnframt á forseta landsins, Andrzej Duda, að vera ekki að sóa frekari tíma með því að veita stjórnarflokknum Lögum og réttlæti fyrst formlegt umboð til stjórnarmyndunar.
Duda hóf í morgun samtöl við leiðtoga þeirra flokka sem náðu mönnum á þing til að kanna hvernig landið liggur. Það er á könnu forsetans að veita einum þeirra svo formlegt umboð til stjórnarmyndunar.
Tusk, sem er leiðtogi Borgaralegs vettvangs, lýsti því yfir í morgun að hann og leiðtogar flokkanna Þriðju leiðarinnar og Nýja vinstriflokksins væru staðráðnir í að starfa saman og mynda nýjan meirihluta. Hann bætti því jafnframt við að hann væri forsætisráðherraefnið í slíku samstarfi.

Tusk hvatti í morgun forsetann Duda til að tefja ekki fyrir slíku ferli, en Duda er náinn bandamaður leiðtoga Laga og réttar. Fyrir kosningarnar sagði Duda að hann myndi veita leiðtoga stærsta flokksins í kosningunum umboð til stjórnarmyndunar.
Lög og réttur, flokkur forsætisráðherrans Mateusz Morawiecki og leiðtogans Jaroslaw Kaczyński, varð sem fyrr stærsti flokkurinn á þingi eftir að hafa hlotið rúmlega 35 prósent atkvæða í kosningunum.
Borgaravettvangur, flokkur Tusks, hlaut tæplega 31 prósent atkvæða, á meðan mið-hægriflokkurinn Þriðja leiðin hlaut 14 prósent atkvæða og Nýja vinstrið tæplega níu prósent atkvæða.
Hafi sóað átta árum
Szymon Hołownia, einn leiðtoga Þriðju leiðarinnar, sagði í morgun að Lög og réttur hefði nú vegar „sóað átta árum að lífi“ Pólverja. „Þeir hafa fært okkur fimmtíu ár aftur í tímann í stað þess að færa okkur áfram. Þess vegna biðlum við til Duda forseta að sóa ekki annari sekúndu.“
Władysław Kosiniak-Kamysz, leiðtog Þriðju leiðarinnar, sagði flokkana staðráðna í að mynda saman meirihluta. „Saman munum við tilnefna, bæði í dag og á morgun á skrifstofu forseta, Donald Tusk sem næsta forsætisráðherra.“
Fyrrverandi forsætisráðherra og forseti leiðtogaráðs ESB
Hinn 66 ára Tusk var forsætisráðherra Póllands á árunum 2007 til 2014 og var forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins á árunum 2014 til 2019. Í kosningabaráttunni hét hann því að bæta samskipti Póllands og Evrópusambandsins.
Talið er að niðurstaða kosninganna kunni að marka nokkur vatnaskil í samskiptum Póllands og Evrópusambandsins, en síðustu ár hefur ítrekað kastast í kekki milli stofnana ESB og pólskra stjórnvalda, meðal annars vegna afskipta framkvæmdavaldsins í Póllandi af dómstólum í landinu.
Öfgahægriflokkurinn Sambandsmyndun, sem var eini flokkurinn sem var líklegur til að fara í samstarf við Lög og rétt, hlaut rúmlega sjö prósent atkvæða í kosningunum.
Þau málefni sem voru mest áberandi í kosningabaráttunni voru innrás Rússa í Úkraínu, málefni innflytjenda og kvenréttindi.