Lífið

Lærir spænsku eftir fréttirnar af ó­læknandi krabba­meini móður sinnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kamilla er þekkt fyrir einstakan húmor sinn og einlægni, líkt og augljóst er í nýjasta þættinum af Einkalífinu.
Kamilla er þekkt fyrir einstakan húmor sinn og einlægni, líkt og augljóst er í nýjasta þættinum af Einkalífinu. Vísir/Vilhelm

Kamilla Einars­dóttir, rit­höfundur og bóka­vörður, segir að veikindi móður sinnar hafi sett lífið í sam­hengi. Hún segist ekki missa svefn yfir skoðunum annarra á ástar­lífi sínu og segist blása á þá gagn­rýni að húmor sé flótti undan veru­leika lífsins, hann sé frá­bær til þess að takast á við erfið­leika.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Einka­lífinu á Vísi þar sem Kamilla er gestur. Hún ræðir barn­æskuna í Hlíðunum og fjöl­skylduna en Kamilla er dóttir Einars Kára­sonar rit­höfunds og Hildar Baldurs­dóttur, bóka­safns­fræðings.

Kamilla er þekkt fyrir húmor sinn og ræðir eigið hispurs­leysi á sam­fé­lags­miðlum, en einnig veikindi móður sinnar sem er með ó­læknandi krabba­mein og hvernig fjöl­skyldan hefur tekist á við þau með já­kvæðnina og Duolingo að vopni.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan. Einnig er hægt að hlusta á þáttinn í hlaðvarpsformi á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Klippa: Einkalífið - Kamilla Einarsdóttir

Keppst við að segja sögur

„Það er rosa mikill á­hugi í fjöl­skyldunni fyrir sögum og það eru allir alltaf að hvetja alla til þess að segja sögur. Þegar ég var ung­lingur og maður lenti í ein­hverju hræði­legu, hvöttu mamma og pabbi mig alltaf til að segja þeim frá þessu og rifja upp ömur­legustu sögurnar, af því að þeim fannst þær svo fyndnar,“ segir Kamilla.

Þannig hafi Kamilla lært frá unga aldri að sjá það já­kvæða í öllum að­stæðum. Kamilla hefur gefið út tvær skáld­sögur, Kópa­vog­skrónikuna og Til­finningar eru fyrir aumingja. Hún segist sækja inn­blástur í hvers­daginn.

„Maður fær þetta allt í kringum sig. Ég var ný­lega í strætó og það var ein­hver kona að svara í símann sinn. „Æi fyrir­gefðu vinur minn að ég skyldi keyra á þig þarna um daginn,“ svo þurfti ég að fara út,“ segir Kamilla sem segist hafa verið skilin eftir með fleiri spurningar en svör.

Kamilla segir alls engan ríg á milli rit­höfundanna í fjöl­skyldunni, á milli hennar, pabba hennar Einars Kára­sonar og systur, Júlíu Margrétar Einars­dóttur.

Kamilla segir fjölskylduna alltaf hafa heillast af góðum sögum.

„Við berum ekki undir hvort annað eigin skrif. En það er ó­trú­lega gott að hafa þau, ég get oft talað við þau um eitt­hvað leiðin­legt, sem lista­menn kannast við, til dæmis vesenið með skattinn. Ég hef skrifað skattinum mjög marga tölvu­pósta.“

Fyrsta bók Kamillu í fullri lengd, Kópa­vog­skrónikan, var sett á svið í Þjóð­leik­húsinu árið 2020 í leik­stjórn Silju Hauks­dóttur. Ilmur Kristjáns­dóttir fór með aðal­hlut­verk. Kamilla segir ferlið hafa verið lyginni líkast, þó heims­far­aldurinn hafi haft sín á­hrif á sýningarnar.

„Þetta var svo skemmti­legt, að sjá hvernig þær unnu þetta og hvernig leik­hús virkar. Ég ætlaði ekkert að vera með en svo buðu þær mér á æfingu og ég heillaðist svo af þessu. Öllu sem var hægt að gera, ég var ó­þolandi,“ segir Kamilla hress í bragði.

Hún segist hafa verið dug­leg að mæta á sýningar í sam­komu­tak­mörkunum. „Ég man að á fyrsta sam­lestrinum þá talaði sviðs­höfundurinn um að láta sviðið mynda leg. Ég hugsaði hvort ég væri í ein­hverjum Tví­höfða­skets en svo kom þetta ó­trú­lega vel út,“ segir Kamilla hlæjandi.

Kamilla á ekki langt að sækja áhugann á bókum.

Stundum lesið um ástar­líf Kamillu í blöðunum

Ástar­líf Kamillu hefur meðal annars verið um­fjöllunar­efni fjöl­miðla. Hún segir að það skipti sig litlu máli og lýsir því hvernig mamma sín hafi eitt sinn lesið um nýjan elsk­huga í blaðinu.

„Eins og síðast þegar það kom frétt um að ég væri í sam­bandi þá las mamma um það í blaðinu. Hún var bara: „Kamilla, hefurðu eitt­hvað að segja mér?“ Ég var bara: „Ahhhh, já ég gleymdi því.“

Var hún sár?

„Nei, guð henni fannst það ó­geðs­lega fyndið. Mömmu er alveg sama hvern ég er að hitta og hvern ekki,“ segir Kamilla hlæjandi. Hún segist vera ein­hleyp og hamingju­söm.

„Ég er ekki á neinum stefnu­móta­öppum og mér finnst sam­bönd mjög skrítin. Mér finnst deit fá­rán­leg hug­mynd en ég hef verið mjög heppin og hef verið með frá­bæru fólki og kannski hittir maður ein­hvern ein­hvern tímann en ef það gerist aldrei þá skiptir það mig engu máli, ég á ó­geðs­lega mikið af vinum og það er nóg að gera.“

Kamilla segir húmorinn alltaf hafa ráðið ríkjum á heimili foreldra sinna.

Veikindin hafa sett lífið í sam­hengi

Kamilla segist ekki í neinu kvíða­kasti yfir frétta­skrifum af ástar­lífi sínu. Ekkert skipti máli annað en fjöl­skyldan og vinir.

„Í desember á síðasta ári þá gerist það að mamma mín greinist með gamalt krabba­mein sem tekur sig upp aftur. Hún er­með fjórða stigs ó­læknandi krabba­mein og það býr til lær­dóms­ríkan fókus, um að lífið er núna. Allt svona utan­að­komandi skiptir engu máli, eitt­hvað svona bull, hvað ein­hver skrifar.“

Kamilla segir að það eina sem skipti máli sé að vera með fjöl­skyldunni sinni. Að þeim líði vel og að hún geti verið til staðar fyrir þau. Hún segist afar þakk­lát Krabba­meins­fé­laginu, sem hafi hjálpað fjöl­skyldunni mikið.

„Þess vegna er ég öll í bleiku slaufunni. Það er ó­trú­lega mikinn stuðning hægt að fá hjá þeim. Fólk sem er leiðin­legt, dramatískt og fer í fýlu, ekki hafa þau í lífi þínu. Í staðinn fyrir að reyna að redda því og reyna að gera allt gott, slepptu því bara. Slepptu því bara að vera með þannig fólk í lífi þínu og ein­beittu þér að öllu því góða og skemmti­lega, sem er ó­geðs­lega mikið, meira að segja þegar eitt­hvað svona er í gangi.“

Kamilla fer yfir það hvað skiptir máli í lífinu í nýjasta þættinum af Einkalífinu.Vísir/Vilhelm

Fjöl­skyldan öll á Duolingo

Kamilla segist virki­lega þakk­lát vinum sínum sem hafi gert mikið fyrir sig á erfiðum tímum. Allir hafi sinn djöful að draga en allir séu til­búnir til þess að vera til staðar.

„Það er miklu skemmti­legra að hugsa um allt það fal­lega og góða og ein­beita sér að því. Hitt er alveg erfitt en maður dílar bara við það jafn­óðum. Maður getur alla­vega sleppt því að missa vefn yfir því hvað ein­hverjum finnst um ástar­líf mitt.“

Kamilla segir nánast vesen fyrir fjöl­skylduna að fara saman á kaffi­hús. Svo mikið sé hlegið og gleðin alls­ráðandi. Það sé ekki síst vegna þess að þau hafi fengið svo mikla hjálp og stuðning, meðal annars frá Krabba­meins­fé­laginu.

„Ég held að fólk díli við þetta á mis­jafnan hátt. Ég ætlaði fyrst að taka þetta á hörkunni. Ef það væri ein­hver zombie far­aldur þá er rosa gott að ein­hver geti gert það. En svo gengur það ekki enda­laust. Þetta kemur aftan að manni og það eru alls­konar til­finningar og þetta er rosa yfir­þyrmandi.“

Kamilla segir mömmu sína vera besta í að leið­beina fjöl­skyldunni. Hún hnippi í þau og minni á að leita sér stuðnings og sé dug­leg að gera það sjálf.

Kamilla ásamt mömmu sinni Hildi Baldursdóttur og systur, Júlíu Margréti Einarsdóttur.

„Svo er líka rosa gott að mamma á­kvað að díla við þetta með því að læra förðun og þýsku. Okkur fannst það svo skrítið fyrst en við fylgdum henni. Við vorum alveg til­búin. Ef hún hefði sagt sjósund þá værum við bara öll komin út í sjó. Þannig að við vorum öll til í að bera á okkur krem, ókei.“

Kamilla segir létt í bragði að fjöl­skyldan hafi verið hissa á að móðir hennar hafi viljað læra þýsku. Það hafi þó fljót­lega komið í ljós ða það væri frá­bær leið.

„Svo erum við búin að fatta að þetta er náttúru­lega besta kvíða­lyf í heimi. Hún fór í þýsku, ein í fjöl­skyldunni fór að læra ítölsku, ég er alveg á kafi í spænsku og þetta er full­komið þegar kvíði hellist allt í einu yfir mann. Auð­vitað er hægt að fá alls­konar pro­fessional hjálp, en þau eru kannski ekki alltaf við höndina. Fljót­virk ráð eru að hella sig fulla eða fara að ríða út í bæ en það er kannski líka vesen ef þetta er á þriðju­degi klukkan 11. Þá er ég með spænskuna, af því að ef þú ert að hella þér í að skilja ein­hverja spænska ó­reglu­lega sögn, þá geturðu ekki hugsað um neitt annað. Allt annað verður að víkja.“

Þannig að þú, mamma þín og systir þín eruð allar í þessu?

„Og dætur mínar! Við erum öll í þessu. Við sitjum öll í þessu heima hjá mömmu og pabba og erum í Duolingo. Bling. Það er líka gott, þá erum við að keppast um að ná betra stigi í ein­hverju.Eins og hjá mér ef það er ein­hver kvíði þá bara svíf ég upp met­orða­stigann í Duolingo. Ég mæli með, þetta er rosa­lega holl leið til að díla við kvíða.“

Hægt er að horfa á Einkalífið í heild sinni á Vísi. Einnig er hægt að hlusta á þáttinn í hlaðvarpsformi á öllum helstu hlaðvarpsveitum. 


Tengdar fréttir

Tekst á við bróður­missinn með tón­listina og hlaupin að vopni

Óskar Logi Ágústs­son hefur verið for­sprakki hljóm­sveitarinnar Vinta­ge Caravan í sau­tján ár, allt frá því að hann stofnaði hljóm­sveitina í grunn­skóla á Álfta­nesi. Óskar missti eldri bróður sinn árið 2018 og segist hafa sín ráð til að takast á við sorgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.