El País greinir frá því að þetta hafi verið á meðal kosningaloforða hans og Smer, flokks hans sem bar sigur úr býtum í þingkosningum þar í landi í síðasta mánuði.
Robert Fico var forsætisráðherra Slóvakíu á árunum 2006 til 2010 og aftur frá 2012 til 2018 en tapaði kosningum 2020 í kjölfar spillingarmála. Í sigurræðu sinni sagði hann að „slóvakíska þjóðin hefði stærri vandamál en Úkraínu“ og bætti við að „frekari dráp hjálpi engum.“
Fico hefur áður lýst aðdáun sinni á Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem hefur margsinnis verið sakaður um einræðistilburði og að grafa undan lýðræði og frelsi dómstóla þar í landi. Þá hefur hann einnig gagnrýnt refsiaðgerðir á hendur Rússlandi og þykir hliðhollur Pútín og stjórn hans.
Andrej Danko, formaður hægriöfgaflokksins Þjóðarflokks Slóvakíu sem er einn samstarfsflokka Smer í ríkisstjórn, hefur lýst skýrum stuðningi við Rússland. Hann hefur meðal annars sagt að svæði í Úkraínu sem hafa verið hernumin af Rússlandi séu ekki „sögulega úkraínsk“ og kallað utanríkisráðherra Rússlands, Sergej Lavrov, kæran vin sinn.
Í kosningabaráttunni fjallaði Fico mikið um Úkraínu og meðal helstu loforða hans voru algjör stöðvun á hernaðaraðstoð, aukið sjálfstæði Slóvakíu í utanríkismálum og herða tökin á landamærunum.
Hingað til hefur Slóvakía stutt við bak Úkraínumanna og gefið hernaðargögn ásamt því að opna landamæri sín fyrir Úkraínumönnum sem hafa flúið land vegna átakanna.