„Mér fannst þetta helvíti súrt. Þær fá eitthvað 50/50 víti og annars hefðum við bara getað haldið þeim í núllinu,“ sagði Karólína að leik loknum. „Maður er aldrei sáttur með tap, en mér fannst ákveðinn stígandi í þessum glugga.“
Þýska liðið hafði nánast öll völd á vellinum í fyrri hálfleik og íslensku stelpurnar komust varla yfir miðju. Karólína segir að íslenska vörnin hafi staðið sína vakt vel.
„Þetta er Þýskaland þannig að maður býst kannski ekki við því að maður sé að sækja mikið. En mér leið aldrei eins og þær væru að fara að skora og við vorum óheppnar að dómarinn dæmi þetta víti þegar hann hefði mögulega getað sleppt því. Og þá veit maður ekki hvort maður hefði getað haldið þeim bara í núllinu.“
Hún vildi þó ekki tjá sig of mikið um vítaspyrnuna sem Þjóðverjar fengu.
„Ég heyrði að það hafi verið eitthvað 50/50 og ég þarf bara að sjá það aftur. Ég er ekki alveg viss.“
Þá var einnig alveg hægt að færa rök fyrir því að Karólína sjálf hafi átt að fá vítaspyrnu í leiknum, en líkt og með vítaspyrnuna sem Þjóðverjar fengu vildi hún lítið tjá sig um það.
„Þú verður eiginlega að segja mér það,“ sagði Karólína létt, aðspurð að því hvort hún hafi átt að fá víti.
„Ég veit það ekki. Það var smá snerting, en maður þarf stundum að reyna að leika aðeins á þessa dómara.“
Hún segir einnig að íslenska liðið hafi klárlega átt að setja meiri pressu á mark gestanna.
„Klárlega. Við fáum færi til að jafna, en þetta féll þeirra megin í dag og það var ansi sárt.“
Íslenska liðið hefur nú ekki skorað í þremur leikjum í röð, en Karólína virðist þó ekki hafa of miklar áhyggjuar af því.
„Mér finnst það persónulega ekkert áhyggjuefni. Markið kemur bara þegar það kemur og við höldum bara áfram að æfa þessi slútt. Ég hef engar áhyggjur.“
„Mér finnst sóknarleikurinn mun betri en í síðasta glugga og það er stígandi þar. Við erum að skapa okkur fleiri færi en í síðasta glugga þannig að í næsta glugga hljóta mörkin að koma,“ sagði Karólína að lokum.