Myndin keppir um verðlaun sem besta alþjóðlega heimildamyndin á hátíðinni sem lýkur 16. nóvember. Leikstjórarnir Smári Gunnarsson og Logi Sigursveinsson sátu fyrir svörum eftir sýningu ásamt stjörnum myndarinnar Kára Viðarssyni og Freydísi Bjarnadóttur.

Smári segir í samtali við Vísi að viðbrögðin á hátíðinni hafi verið framar vonum og áhorfendur hafi hlegið og grátið gleðitárum.
Sýningin fór fram í fornfrægu kvikmyndahúsi, Village East by Angelika á Manhattan og rauða dreglinum var rúllað út fyrir aðstandendur myndarinnar.
Heimaleikurinn hlaut fyrir skemmstu áhorfenda verðlaun á Nordisk Panorama en áður hafði hún unnið áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar.
Heimaleikurinn fjallar um tilraun manns til að uppfylla draum föður síns um að safna í lið heimamanna og spila langþráðan vígsluleik á fótboltavelli sem hann lét byggja á Hellissandi 25 árum áður.
Heimaleikurinn hefur verið sýnd í rúman mánuð í kvikmyndahúsum á Íslandi og eru örfáar sýningar eftir.