Ólætin brutust út í kjölfar hnífaárásar fyrir utan skóla í borginni þar sem maður á fimmtugsaldri réðst með eggvopni á börn og eina konu. Fimm ára gömul stúlka særðist alvarlega og tvö önnur börn og kona á fertugsaldri særðust einnig. Maðurinn er í haldi lögreglu.
Tvær stúlkur og konan eru enn á sjúkrahúsi.
Skömmu eftir árásina brutust óeirðirnar út sem lögregla segir að hafi verið skipulagðar af hópum sem aðhyllist hægri öfgastefnu. Á annan tug verslana voru skemmdar, kveikt var í þremur strætisvögnum og einum sporvagni og fjöldi lögreglubíla var einnig eyðilagður.
Drew Harris, yfirmaður lögreglunnar, segir að handtökurnar verði mun fleiri, samkvæmt Irish Times.
Nokkrir lögreglumenn slösuðust í átökunum en fjögur hundruð slíkir voru kallaðir út til að reyna að hafa hemil á hópnum. Þá reyndu ofbeldismennirnir að komast inn á skólalóðina þar sem árásin var gerð og segir lögregla að þeir hafi spillt rannsóknarvettvangnum og eyðilagt sönnunargögn í málinu.