Þetta segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, í samtali við fréttastofu.
„Eins og flestir þá erum við að reyna að átta okkur almennilega á staðsetningu þessa goss, en þetta virðist vera á þeim stað þar sem líklegast var talið að myndi gjósa. Við höldum áfram að fylgjast með.
Við erum búin að senda upplýsingar á okkar gesti og starfsfólk okkar um að lónið verði lokað á morgun,“ segir Helga. Hún segir að staðan verði svo betur metin á morgun.
Bláa lónið opnaði á ný í gær eftir að hafa verið lokað í rúmar fimm vikur vegna óvissunnar á Reykjanesskaga. Hótelin tvö við lónið og veitingastaðurinn Moss voru þó áfram lokuð.