Í umfjöllun Reuters kemur fram að bandarisk flugmálayfirvöld fylgist vel með farþegaþotunum og skoðunum á þeim vegna málsins. Þau muni bregðast við sé frekari aðgerða þörf.
Fram kemur í umfjöllun miðilsins að Boeing hafi hvatt til skoðunarinnar eftir að alþjóðlegt flugfélag uppgötvaði bolta í hæðarstýriskerfi flugvélarinnar sem vantaði á ró.
Til að gæta fyllsta öryggis fer Boeing fram á að flugvélar af þessari gerð verði skoðaðar innan tveggja vikna. Framleiðandinn tekur fram að ekki þurfi að skoða vélar sem afhentar eru eftir þessa uppgötvun.
Þá tekur Boeing fram að vandamálið eigi ekki við um eldri vélar af 737 gerð. Reuters hefur eftir United Airlines flugfélaginu að félagið búist ekki við því að vandamálið muni hafa áhrif á starfsemi flugfélagsins. Tekið er fram í umfjölluninni að það sé hluti af reglubundnu verklagi allra flugáhafna að fara yfir stýrisbúnað farþegaþotna áður en haldið sé af stað.
Bandarísk flugmálayfirvöld segja að þau muni fylgjast grannt með stöðu mála. Fram kemur í umfjöllun Reuters að vel hafi verið fylgst með framleiðslu á 737 MAX vélunum eftir að þær voru kyrrsettar í tuttugu mánuði eftir mannskæð flugslys árin 2018 og 2019.